Hækkun skattleysismarka

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:01:49 (1784)


[18:01]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður sem hér hafa orðið. Ég vil fyrst taka það fram að ég get alveg tekið undir það að fullorðið fólk eigi skilið að fá 900 millj. eða einn milljarð og sjálfsagt mætti tala þannig um hina og þessa hópa. Það vill svo til að við rekum ríkissjóð samt með dynjandi halla upp á marga milljarða og það kemur auðvitað einhvern tíma að því að menn þurfa að borga þessa peninga til baka. Og ef við erum ekki tilbúin til að gera það nú, þá erum við að setja þennan skatt á framtíðina, á þá sem þurfa að borga hann þá.
    Þegar rætt er um 2 milljarða í ferðakostnað og aksturskostnað og nefna síðan ráðherrafrúr í sama orðinu, verða menn að hafa það í huga að það er verið að tala um allan aksturskostnað ríkisins jafnt fyrir vegamál og öll fyrirtæki, sem er bara hreinn kostnaður fyrirtækjanna. Þannig að menn mega ekki taka þessa tölu eins og þetta sé einhver bruðltala í ferðum til útlanda á vegum þingmanna og ráðherra. Ég nefni það sérstaklega. Ég nefni það líka að dagpeningar voru lækkaðir fyrir ráðherra og ég held þingmenn á sínum tíma og aðstoðarráðherra eða aðstoðarmenn ráðherra o.fl. Ég ætla að halda því til haga.
    Ef við lítum á íslenska skattkerfið kemur í ljós að það eru einkenni á því sem er ástæða til þess að minnast á. Það er í fyrsta lagi að skattleysismörkin eru mjög há, tiltölulega há, en aftur á móti er hlutfallið einnig mjög hátt. Það sem er þess vegna það versta í skattkerfinu er að jaðaráhrifin eru mjög alvarleg, þ.e. menn tapa bótarétti mjög fljótt, hvort sem það er fullorðið fólk eða ungt fólk. Þetta er, held ég, það sem menn ættu kannski að einhenda sér í ef þeir vilja breyta skattalögunum. Mest um vert þó er að ná til þeirra sem þurfa mest á því að halda. Það er fólk sem er undir skattleysismörkunum og það var þess vegna, og um það erum við, ég og hv. þm., sammála, að við fórum í það á sínum tíma að lækka virðisaukaskatt af matvælum því að þetta fólk sem hefur svo lágar tekjur, eins og það fólk sem er undir skattleysismörkunum, ver miklu stærri hluta tekna sinna til kaupa á matvælum.