Staðgreiðsla af launum blaðsölubarna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:06:50 (1786)


[18:06]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom reyndar hjá hv. þm. þá er þessi fyrirspurn kannski úrelt núna, þar að auki sem ég held að hún hafi frá upphafi byggst á nokkrum misskilningi sem ég mun nú fjalla um.
    Það gerðist á árinu 1988 að það var send kæra af hálfu blaðaútgefanda til umboðsmanns Alþingis sem sendi kæruna áfram til ríkisskattstjóra. Kæran var sú að ekki væri sama framkvæmd á þessum málum í öllum umdæmum landsins. Ríkisskattstjóri svaraði þessu, sendi bréf til viðkomandi aðila og sagði að skattskyldan væri skýr.
    Það hefur komið í ljós síðan að framkvæmdin er misjöfn milli skattumdæmanna og við skoðun hér í Reykjavík, venjulega skoðun hjá skattstjóranum í Reykjavík, kom í ljós að stórir fjölmiðlar hafa ekki farið eftir lögunum. Einn hv. þm., fyrrv. ráðherra, hefur haldið því fram að hann hafi gefið fyrirmæli um þetta meðan hann var í ráðuneytinu. Þau fyrirmæli finnast hvergi og enginn kannast við að hafa tekið á móti þeim, hvorki í ráðuneytinu né heldur hjá ríkisskattstjóra, enda væri ólögmætt að gefa út slík fyrirmæli, eins og ég veit að ríkisskattstjóri hefur skýrt út í hv. efh.- og viðskn. Þetta mál snýst ekki um sölubörn. Þetta snýst um umboðsmannakerfi dagblaðanna, dreifingarkerfi. Þar eru auðvitað fleiri á ferðinni heldur en börn því að sumir eru eldri en 16 ára sem hafa af þessu verulegar tekjur og þetta þarf að koma fram.
    Það hefur engin ný ákvörðun verið tekin af hálfu ráðuneytisins eða ráðherrans í þessu máli. Þvert á móti hefur þetta mál eingöngu verið á vegum skattkerfisins eins og á að fara með venjuleg skattamál. Það kom fram hjá hv. þm. að það hefði verið ákveðið og það gerði ríkisstjórnin að minni tillögu, að endurskoða skattlagningu á börnum og ungmennum innan 16 ára. Það kann að vera athyglisvert að ég gefi upp tölur í því sambandi því það kemur í ljós samkvæmt álagningu tekjuskatts og útsvars á árinu 1994, að þá var álagning tekjuskatts og útsvars, en tekjuskatturinn er 4% og útsvar 2%, þannig að þetta er ekki eingöngu skattur til ríkisins, á börn innan 16 ára aldurs samtals tæpir 44 millj. kr. Skattur þessi var lagður á rúmlega 10.100 einstaklinga eða að jafnaði tæplega 4.400 kr. á hvern. Þetta svarar til meðaltekna að fjárhæð rúmlega 72 þús. kr. á ári hjá hverjum þeirra.
    Eins og þessar tölur gefa til kynna er mikill fjöldi barna og unglinga innan 16 ára inni í skattkerfinu. Þau skila framtölum og staðgreiðsla er dregin af launum þeirra. Hér var því einungis um samræmingu að ræða og ég vona að þetta mál skýrist núna betur heldur en það gerði í umræðum sem urðu um þetta mál hér um daginn, en því miður virðist eins og DV hafi leitt ýmsa hv. þm. á villigötur í umfjöllun sinni um þetta mál. Það eru sem sé 10.100 einstaklingar sem skila skatti og þarna eru verulegar fjárhæðir á ferðinni. Það er verið að vinna að endurskoðun laganna og það mun vera gert í samráði við efh.-

og viðskn.
    Vegna þess að það er spurt um hve mikla fjármuni hægt er að fá inn af hátekjuskattinum skal því svarað til að samkvæmt álagningu eru þetta 438 millj. kr., en ég býst við að innheimtan sé í kringum 400 millj., svona um það bil, til þess að gefa einhverja hugmynd um það hversu miklir fjármunir eru á ferðinni. Því miður get ég ekki svarað fsp. hv. þm. um það hve mikið kæmi inn ef farið væri að lögunum eins og meiningin er að fullu, því að það eru ekki til neinar upplýsingar hjá þeim sem ekki hafa skilað inn upplýsingum. Þannig að ég get ekki svarað þeirri fyrirspurn.
    Þetta vil ég láta hér fram koma til þess að skýra þetta mál. Aðalatriðið er að lögunum verður breytt og þá þurfa menn auðvitað að gera það upp við sig hvort sú breyting á að ná til allra barna og ungmenna, líka til sendla og þeirra sem vinna í frystihúsum eða hvort menn ætla að láta staðar numið hjá þeim sem bera út eða selja blöð. Þetta verður að sjálfsögðu til meðferðar á næstu dögum.