Staðgreiðsla af launum blaðsölubarna

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:14:24 (1789)


[18:14]
     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég verð nú að játa að ég er dálítið glöð að ég skyldi hafa látið þessa fyrirspurn fram ganga þó að hún væri kannski orðin úrelt eftir þær umræður sem hér fóru fram um daginn. Það vekur óneitanlega athygli mína það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra, að 10 þúsund börn á Íslandi undir 16 ára aldri hafi að jafnaði, ef ég skyldi hæstv. ráðherra rétt, 72 þús. kr. á mánuði. ( Gripið fram í: Nei, á ári.) Á ári, það hlaut að vera. ( Gripið fram í: 6 þús. á mánuði.) Jæja, sama er um, 72 þús. kr. á ári. Það þýðir að 10 þúsund börn á Íslandi afla á ári 720 milljörðum. Passar það ekki? ( Gripið fram í: Nei.) 72 þús. sinnum 10 þús. Ég kann ekki að margfalda betur. Ég fæ ekki betur séð en það hljóti að vera svo. ( Fjmrh.: Nei, nei. Ég skal skýra þetta.) Þá hef ég misskilið alvarlega upplýsingar ráðherra og hann leiðréttir það þá. ( Fjmrh.: Það er 6% skatturinn sem gefur 44 millj. ( SvG: Það eru 720 millj. sem þarna er verið að tala um.) Það eru 720 millj. sem þessi börn afla, já, það hlaut að vera. En 720 millj. er engin smáfjárhæð. Maður spyr sjálfan sig hvort það sé tilviljun þessi 10.000 börn, í landinu munu vera um 10.000 börn einstæðra mæðra eða einstæðra foreldra. Ég hlýt nú að setja spurningarmerki við þessa miklu barnavinnu. Það er kannski ekki að furða þó að skólabörn í landinu séu ekki alltaf duglegir nemendur ef börnin eru í meiri og minni vinnu með námi. Hvers konar efnahagur er það hjá íslenskum fjölskyldum ef 10.000 börn í landinu þurfa að afla 720 millj. kr. á ári í vinnutekjur? Er það ekki dálítið skondið að skattgreiðsla þessara barna, sem mér skilst að sé um 44 millj. það er þegar öllu er á botninn hvolft einn tíundi hluti,

dálítið stór hluti af hátekjuskatti þeirra sem hann hafa borgað sem er 400 millj. kr. Það eru þá börn undir 16 ára aldri sem greiða tíunda hluta af hátekjuskatti landsmanna. Hvað er hér að ske í efnahag íslensku fjölskyldunnar?