Yfirstjórn löggæslu á einstökum svæðum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:20:43 (1792)


[18:20]
     Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson) :
    Virðulegi forseti. Þannig háttar til að í Reykjavík hefur að undanförnu verið talsvert mikil umræða um löggæsluna og öryggi borgarbúa. Ástæðurnar fyrir því eru margvíslegar og ástæðulaust að fara yfir það hér. En þessar umræður hafa orðið til þess að þessi mál hafa verið tekin upp í borgarstjórn Reykjavíkur og borgarráði af trúi ég meira og minna fulltrúum allra þeirra flokka sem þar eiga fulltrúa. Fyrir skömmu var borin fram tillaga í borgarstjórn af borgarfulltrúum Sjálfstfl. þar sem fjallað var um þann möguleika að löggæslumál yrðu að nokkru leyti í höndunum á sveitarstjórninni þegar um væri að ræða sérstök staðbundin tiltekin vandamál.
    Jafnframt hafa komið fram hugmyndir um að þessi þjónusta við almenning verði alveg flutt til sveitarfélaganna. Ég tel út af fyrir sig að það sé ekkert óeðlilegt að menn velti því fyrir sér. Lögreglan var

hjá sveitarfélögunum að nær öllu leyti til ársins 1972 ef ég man rétt. Alla vega var það á því kjörtímabili 1971--1974 sem breytingar urðu á yfirstjórn lögreglunnar. Hins vegar var lögreglan þá samvinnuverkefni ríkisins og sveitarfélaganna vegna þess að ríkið fór að sjálfsögðu með yfirstjórn að því er varðaði að skipa lögreglustjóra á hverju svæði og þess vegna brugðu menn á það ráð að flytja lögregluna alveg til ríkisins af því að menn töldu að það væri hreinna og beinna og skýrara að hún væri þar. Nú hefur þetta hins vegar komið upp hér í Reykjavík með vaxandi þunga fyrst og fremst vegna þess að það er skoðun margra hér að sveitarstjórnin, í þessu tilviki borgarstjórn Reykjavíkur, sé í raun og veru mikið nær því að geta haft yfirumsjón með þessum málum á eðlilegum forsendum heldur en ríkið. Af þeirri ástæðu hef ég leyft mér, hæstv. forseti, að bera fram til hæstv. dómsmrh. fyrirspurn um yfirstjórn löggæslu á einstökum svæðum sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Er ráðherra tilbúinn að beita sér fyrir því að lögum um löggæslumál verði breytt þannig að sveitarfélögum verði veitt heimild til að hafa með höndum stjórn staðbundinnar löggæslu?``