Yfirstjórn löggæslu á einstökum svæðum

39. fundur
Mánudaginn 21. nóvember 1994, kl. 18:30:00 (1795)


[18:30]
     Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Herra forseti. Varðandi það frv. sem ég kynnti hér á sl. vori og ég minntist á í fyrri ræðu minni þá er það svo að það er nú til nýrrar skoðunar í ráðuneytinu. Ég tek alveg undir það með hv. þm. að það er mjög mikils um vert að gæta vel að þessum verkefnum og markviss löggæsla hefur mikla þýðingu fyrir vaxandi bæjarfélag eins og til að mynda Reykjavík. Auðvitað setja fréttir af ofbeldisverkum óhug í menn, en það er á margt að líta í þessu efni. Til að mynda eru nú fleiri mál af þessu tagi skráð en áður var. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni er talið að lögreglan hafi fengið vitneskju um 33% líkamstjóna árið 1989 en um það bil 43% þeirra 1992. Lögreglan hefur nú afskipti af stærri hluta þessara mála en áður var. Það er líka athygli vert að talið er að málum út af líkamsáverkum, stórum og smáum, hafi fjölgað um 19% milli áranna 1989 og 1990, en á sama tíma hafi orðið 11% fækkun á spítölum og 37% fækkun á innlögnum vegna mála af þessum toga sem gefur vísbendingu um að lögreglan fjalli um stærri hluta þessara mála en áður. Vonandi þá með þeim árangri að koma í veg fyrir og hindra þá þróun sem við verðum að horfast í augu við að verður í borgum eftir því sem þær stækka.
    Það er ávallt brýnt að gera betur og vera vel á verði en ég held þó að starf lögreglunnar hafi skilað árangri og þessar tölur bendi ótvírætt til þessa.