Vegaframkvæmdir á Austurlandi

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 13:52:39 (1803)


[13:52]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Vegna þess að umræðan um þetta mál var slitin í sundur af utandagskrárumræðu og ekki haldið áfram fyrr en nokkru síðar er líklegt að sumt af því sem mönnum var ofarlega í huga þá verði kannski ekki rætt í beinu framhaldi af því eins og annars hefði verið gert. En vegna þeirrar umræðu og sérstaklega þess sem hæstv. ráðherra lagði til hennar finnst mér ástæða til að mæla hér fáein orð. Ég hef óskað eftir því, hæstv. forseti, að hæstv. ráðherra verði viðstaddur umræðuna því að mig langar til þess að bera fram við hann nokkrar spurningar. ( Samgrh.: Það hefði verið mjög leiðinlegt að missa af ræðu hv. þm.) Ég sé að hæstv. ráðherra er mættur í salinn og get þess vegna hafið mál mitt.
    Ég var reyndar búinn að segja álit mitt á tillögu hv. þm. Egils Jónssonar um það að leggja bundið slitlag á vegi á Austurlandi og hafði sett fram ýmsar athugasemdir við tillöguna. En ég tel ástæðu til að hæstv. ráðherra svari fáeinum spurningum í tengslum við þetta mál. Það mátti heyra á máli hæstv. ráðherra að honum fyndist þessi tillaga hv. þm. virðingarverð og, eins og hann komst að orði, að Egill Jónsson hefði báða fæturna á jörðinni. Einnig að það væri engin uppgerð í því að hann vildi ýta á eftir málum á hv. Alþingi. Ég vil að það komi mjög skýrt fram, ef hæstv. ráðherra treystir sér til, hvort hann telji að þessi tillaga hv. þm. eigi að fá samþykki Alþingis, hvort hann sé samþykkur tillögunni. Mig langar líka í framhaldi af því að biðja hæstv. ráðherra að útskýra fyrir hv. þm. hvort hann telur að það eigi að gera breytingar á því fyrirkomulagi sem hefur verið um fjármögnun vegaframkvæmda á undanförnum árum.
    Það eru fleiri ástæður en tillaga hv. þm. Egils Jónssonar fyrir því að ég ber þessa spurningu fram. Nýlega lagði hæstv. ríkisstjórn, líkast til, fram tillögur, kynntar af hæstv. forsrh. um að það eigi að fara í sérstakt vegaátak á Reykjavíkursvæðinu upp á 3,5 milljarða kr. sem eigi að fjármagnast af sérstöku bensíngjaldi að hálfu leyti en af hálfu leyti eigi fjármögnunin að koma til af sjálfu sér sem er mjög mögnuð fjármögnunarleið sem hæstv. ráðherra gæti kannski útskýrt nánar fyrir hv. Alþingi. Er verið að segja með þessari tillögu að skipting vegafjár á undanförnum árum hafi ekki verið undirbyggð á réttan hátt? Það hefur ekki komið fram hingað til og alls ekki við meðferð mála í hv. samgn. að eitthvert ósamkomulag væri um skiptingu vegafjár. En þegar þessir hlutir koma upp á borðið eins og nú er að verið er að tala um annars vegar í þessari tillögu um sérstakt átak í vegagerð á Austurlandi, sem hæstv. ráðherra virðist vera veikur fyrir að styðja, og síðan þetta nýja átak í vegamálum á höfuðborgarsvæðinu, sem ríkisstjórnin hefur sett fram, þá hlýtur maður að spyrja hæstv. ráðherra: Telur hann að á ferðinni hafi verið skekkja og röng skipting vegafjár á undanförnum árum?
    Nú ætla ég að segja það svo það verði ekki misskilið að ég tel fulla ástæðu til að skoða þau mál ævinlega upp á nýtt. Það er ekkert við það að athuga ef menn vilja endurskoða þá skiptingu en ég hef ekki orðið var við gagnrýni á þessa skiptingu fram að þessu og þess vegna er full ástæða til að hæstv. ráðherra úttali sig um þessi mál. Ekki síst vegna þess að hæstv. ráðherra hefur ekkert sagt um þetta átak í vegamálum. Það hefur verið hæstv. forsrh. sem hefur kynnt það mál. Hæstv. samgrh. hefur raunar ekki verið hafður í forustunni fyrir því að kynna átak í vegamálum. Hann gerði það ekki heldur þegar hið svokallaða atvinnuátak í vegamálum var kynnt, það gerði hæstv. forsrh. Hæstv. ráðherra ætti kannski að hafa meira forræði í málunum en það að það séu aðrir sem túlki stefnuna í vegamálum.
    Síðan langar mig vegna umræðunnar um vegaféð og þann stóra hluta þess sem hefur farið á undanförnum árum í ferjur og flóabáta og líka vegna þeirra skulda sem eru taldar hvíla á Vegasjóði vegna atvinnuátaksins að spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig hyggst hann láta Vegasjóð greiða til baka þær skuldir sem hafa verið teknar á Vegasjóð á undanförnum árum? Það er kominn tími til að menn fái um það að vita. Þegar svona stór atriði koma fram eins og þau sem hér eru komin inn í umræðuna þá hlýtur maður að verða að spyrja hæstv. ráðherra hvernig eigi að standa að þessum málum. Ég vil vekja sérstaka athygli á því að í fjárlagafrv. á bls. 342 er tekið mjög sérkennilega til orða og ég vil fá skýringar hjá hæstv. ráðherra hvort þannig eigi að fara að. Undir titlinum Vegamál stendur, með leyfi forseta:
    ,,Í fjárlögum 1994 nam samsvarandi skerðing [þ.e. skerðing á mörkuðum tekjustofnum til vegamála] 370 millj. kr.`` --- hún er núna 275 millj. kr. --- ,,og lækkar því um 100 millj. kr. milli ára.`` Svo kemur, og það vil ég biðja hæstv. ráðherra að hlusta vel á: ,,Skerðingunni er m.a. ætlað að standa undir útgjaldaaukningunni á þessu og síðasta ári vegna hins sérstaka framkvæmdaátaks vegna atvinnumála. Þegar farið var af stað með átakið var gert ráð fyrir að því yrði mætt með skerðingu vegafjár á næstu árum. Nákvæm áætlun verður væntanlega kynnt í næstu vegáætlun.``
    Þarna er skýrt tekið til orða en hæstv. ráðherra hefur aldrei úttalað sig um þessi mál og ég spyr: Eigum við þá ekki að draga skerðingu vegafjár, sem hefur orðið á undanförnum árum frá því að þetta átak í vegamálum fór af stað á vegum hæstv. ríkisstjórnar, frá skuldum Vegasjóðs? Er það þá ekki meiningin að það verði dregið frá skuldum Vegasjóðs frá þeim degi sem átakið hófst? Það er mjög mikilvægt að þetta verði staðfest því að hér stendur þetta skýrt og klárt í fjárlögunum. Ég er ekkert að efast um þá meiningu sem þar er á bak við en það væri betra að hæstv. ráðherra sæi sóma sinn í því að tala nú sjálfur einhvern tíma um þessi mál en láta ekki aðra tala fyrir sig.