Vegaframkvæmdir á Austurlandi

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:10:31 (1808)


[14:10]
     Þuríður Backman :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka frummælanda fyrir að leggja fram þessa þáltill. Eins og fram kemur í greinargerð þá hefur Austurlandskjördæmi dregist aftur úr hvað varðar uppbyggingu hringvegarins. Vegáætlun á að raða verkefnum í forgangsröð en fjárlög eða vegafé að skammta fé til framkvæmda. Ég hygg að það sé krafa okkar að við þessa áætlun sé staðið svo að við vitum nokkurn veginn hvar við stöndum hvað varðar framkvæmdaáætlun til næstu ára.
    Austfirðingar hafa sýnt því skilning að tenging stærstu byggðakjarnanna hefði forgang en nú þegar bundið slitlag er orðið samfellt allt að norðan frá Reykjavík til Húsavíkur og að sunnan frá Reykjavík nær samfellt að Höfn í Hornafirði þá finnum við enn frekar fyrir því hversu slitróttir malbikskaflarnir eru á Austurlandi. Því fagna ég því ef gerð verður uppbyggingaráætlun og stefnt verður að því að helstu vegaframkvæmdum ljúki á næstu 5 árum.
    Samhliða þessari áætlun þarf að staðsetja jarðgöng og tímasetja framkvæmdir í fjórðungnum. Við íbúar Austurlands trúum því að við framkvæmdaáætlun jarðgangagerðar verði staðið. Við stöndum við þá skilgreiningu að forsenda framkvæmda sé að rjúfa vetrareinangrun og á þeirri forsendu samþykktum við að byrjað yrði á Vestfjarðagöngunum og að þeim framkvæmdum loknum yrðu hafnar framkvæmdir á Austurlandi. Framkvæmdaáætlun jarðganga á að vinna samhliða vegáætluninni til þess að heildstæð mynd náist m.a. til þess að ákveða vegarstæðin.