Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:37:56 (1811)


[14:37]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. félmrh. fyrir þau svör sem hún gat veitt á þessum knappa tíma og vona að henni gefist tækifæri til að fara ítarlegar yfir þetta mál síðar í umræðunni. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hún svari því sem beint var beinlínis til hennar. Ég vil sérstaklega nefna það sem hún vék að, það er vanda þess fólks sem er læst fast í skuldaviðjar og getur ekki klárað skuldirnar og heldur ekki selt. Það er ægileg staða og það er gríðarlegur fjöldi fólks í þessari stöðu. Spurningin er: Hvað er hægt að gera af því þetta fólk var á vegum opinberra aðila, ríkis eða sveitarfélaga? Ég held að það sé í raun og veru fyrst og fremst það að menn velti því fyrir sér hvort hægt er að koma upp einhverju kerfi annaðhvort í beinum eða óbeinum tengslum við félagslega íbúðakerfið þar sem menn eru keyptir út úr þessum skuldaviðjum með einhverjum hætti og þannig losaðir út úr algerlega óviðráðanlegum dæmum í mörgum tilvikum. Þess vegna tel ég að það sé skynsamlegast við þær aðstæður sem þarna er um að ræða að það verði sköpuð félagsleg úrræði til að ríki og/eða sveitarfélög, eða jafnvel verkalýðsfélög eða lífeyrissjóðir sameinist um kerfi þar sem unnt er að kaupa þetta fólk út úr þessari óviðráðanlegu skuldagildru sem menn eru í í stórum stíl.