Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 14:40:29 (1813)

[14:40]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég var ekki bara að tala um félagslega kerfið. Ég átti líka við almenna kerfið. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að það er fjöldi fólks í almenna kerfinu sem er kominn í mjög erfiða stöðu, mjög erfiða efnahagslega, fjárhagslega og félagslega stöðu. Ég held að það sé nauðsynlegt að átta sig á því að félagslega kerfið gerir ráð fyrir því að það sé tekið með vissum hætti á vanda þess fólks sem þar kemur upp. En almenna kerfið, húsbréfakerfið gerir það ekki. Þess vegna þarf sérstök lagaákvæði til að hægt sé að koma til móts við þá sem eru í almenna kerfinu, eru skuldugir upp fyrir haus og eru með mikið af húsbréfum og ráða ekkert við vandann eins og hann blasir við þessu fólki. Ég vil líta þannig á uns annað kemur í ljós að hæstv. félmrh. hafi skilning á því að á vanda þessa fólks þurfi sérstaklega að taka.
    Síðan vil ég aðeins nefna það í þessu andsvari að auðvitað þarf að skoða í tengslum við þessi mál félagslega kerfið og þá samspil þess og húsaleigubótakerfisins. Ég held að menn þurfi auðvitað að gera sér grein fyrir því að það að húsaleigubótakerfi er að koma hér upp vonandi, þó það sé gallað, það getur auðvitað haft það í för með sér að eftirspurnin eftir félagslegu íbúðarhúsnæði breytist. Þessa hluti alla eiga menn að stilla saman og reyna að taka á þessu myndarlega. Ég endurtek það sem ég sagði í ræðu minni áðan að það er útilokað að ljúka þessu þingi og þessum vetri án þess að á þessum málum sé tekið.