Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:04:42 (1819)


[15:04]
     Kristinn H. Gunnarsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er að mörgu leyti sammála hv. 1. þm. Vesturl. um að það er rétt og eðlilegt að skoða það í fullri alvöru hvort ekki sé unnt að færa þessa almennu útlánastarfsemi að fullu til bankanna. Húsbréfakerfið er í eðli sínu markaðskerfi sem á ekkert fremur heima í ríkisstofnun en í almennum bönkum. Ég er tiltölulega hlynntur því að menn taki þetta til alvarlegrar athugunar svo að viðskiptabankarnir geti annast þetta mál. En þá verða menn líka að athuga grundvöllinn að húsbréfakerfinu sem er að mínu viti ekki réttur því að hann byggist á því að gefa út verðbréfapappíra án þess að vita hvort einhver vilji kaupa þá. Sá sem fær svokallað húsbréfalán fær ekki peninga, hann fær bara bréf, hann fær bara pappír. Svo verður hann að finna einhvern sem vill kaupa þennan pappír svo að hann fái þá peninga sem hann er að sækjast eftir. Þarna er um að ræða að mínu viti grundvallarmisskilning í útlánastarfsemi að lána fyrst og athuga svo hvort það sé til innstæða fyrir útlánunum. Ég minni t.d. á danska húsbréfabankann sem er þannig að hann lánar ekki nema til séu peningar, hann lánar ekki út aðra peninga en til eru í bankanum. Ef menn vilja fá lán í bankanum þá verður bankinn fyrst að afla peninga til þess að lána út. Hér hefur verið farin hin öfuga leið að lána fyrst án tillits til þess hvort til eru einhverjir peningar til þess að ávísa verðmætin út á. Þetta er hin ábyrgðarlausa útlánastefna sem Alþfl. hefur staðið fyrir í húsnæðismálum síðan hann tók við félmrn. á sínum tíma og ég verð að segja mér finnst eiginlega meira en nóg komið af stefnu Alþfl. í þessum málum.