Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:35:57 (1825)


[15:35]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég hef aldrei orðið vör við annað en að hv. síðasti ræðumaður hefði sæmilega heyrn. Ég eyddi mestum mínum tíma í það áðan að segja hvað ég teldi að þyrfti að gera í þessu efni. Ég var ekki, eins og hv. þm. og fleiri, með þær fullyrðingar að kenna húsbréfakerfinu um eitt og annað, fara aftur í fortíðina um hverjum þetta og hitt væri að kenna. Auðvitað gæti ég eytt hér löngum tíma í það hvernig farið var með húsnæðismálin í tíð hv. þm., 17% lánshlutfall eins og hæstv. félmrh. nefndi. Húsaleigubætur. Það var ekki hægt að fá þær í gegn á meðan þessir hv. þm. voru í ríkisstjórn og fleiri atriði mætti nefna.
    Ég eyddi einmitt mínum tíma í það að segja hvað þyrfti að gera í þessu efni. Ég nefndi fjögur atriði, ætlaði að fara að ræða um það fimmta, sem er lengingin á lánstímanum, og ég hygg að fæstir þeirra sem hafa komið í ræðustól hafi nefnt það ítarlegar hvað þyrfti að gera í þessu efni. Ég vísa þessu auðvitað á bug sem hv. þm. nefnir.