Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:40:58 (1830)


[15:40]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það verður fróðlegt að ræða við betra tækifæri og þegar við höfum meiri tíma þessa sögu við hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhönnu Sigurðardóttur, því ég heyri að hún hefur hér uppi mjög sérkennilega útgáfu af sögunni. Ég held einmitt að ein stærstu mistökin sem hv. þm. og hæstv. fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, gerði hafi verið að framkvæma ekki samkomulagið úr tíð fyrri ríkisstjórnar um það hvernig þessi kerfi yrðu látin skarast og að loka algjörlega lánveitingum í Byggingarsjóði ríkisins. Það sem er að koma á daginn er það að húsbréfakerfið dugar ekki sem grunnfjármögnun gagnvart nýbyggingum og kaupum á nýjum íbúðum. Það gæti gengið í viðskiptum manna með notaðar íbúðir á fasteignamarkaði en sem undirstöðufjármögnun í kerfinu þá bara gengur það ekki. Það ræður ekkert almennt launafólk við þá greiðslubyrði vegna þess að vextirnir á lánunum eru of háir, lánstíminn er of stuttur og þegar svo í ofanálag er búið að skerða vaxtabæturnar þá gengur dæmið ekki upp. Menn verða að þora að

horfast í augu við veruleikann eins og hann er jafnvel þó hann sé ljótur og komi við þá sjálfa, hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir.