Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:44:16 (1833)


[15:44]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Hér á síðasta þingi og líka á þessu þingi hefur verið rætt um frv. um greiðsluaðlögun sem lausn á vanda varðandi vanskil. Það sem ég var að reyna að koma til skila, hv. þm., og við höfum farið í gegnum það, var að mjög fáir geta notið góðs af þessu greiðsluaðlögunarfrv. eins og það hefur verið útfært í Noregi og eins og það var t.d. sett fram í skýrslu. Jafnvel þó það væri sett fram með þessum hætti þá náðist ekki samkomulag og var ekki búið að ná samkomulagi þegar ég var í stól félmrh. við fjmrn. um útfærslu á þessu. Það er það sem ég er að segja. Við erum að ræða frv. um greiðsluaðlögun húsnæðislána. Ég er að tala um að ef ekki verður farið út í víðtækari heimildir en liggja fyrir í þessari skýrslu, en farið var út í í Noregi, þá er verið að gefa væntingar sem ekki standast. Það er það sem ég var að segja, hv. þm.