Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 15:55:00 (1837)


[15:55]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það sem hér hefur verið sagt um að þetta er skammur tími þegar verið er að ræða þessi viðkvæmu mál og mikilvægu sem eru málefni heimilanna í landinu. En ég minni

á að það liggur fyrir að innan skamms verði rædd utan dagskrár skuldastaða heimilanna og má reikna með að það verði eins konar framhald af þeirri umræðu sem hér er.
    Ég vil byrja á að þakka síðasta ræðumanni fyrir mjög málefnalegt innlegg í þessa umræðu og það kemur mér ekki á óvart að það komi frá þingmanninum. Þessi umræða hefur um sumt verið á röngum nótum eftir því sem ég sé þetta mál.
    Mig langar aðeins að svara hv. 1. þm. Norðurl. v. sem fór að tala um að ég hefði verið að oflofa ríkisstjórnina. Þetta er mjög einfalt mál fyrir mér. Ég er stjórnarsinni, ég er stjórnarsinni í þau skipti sem ég er að starfa með öðrum flokkum sem mynda ríkisstjórn alveg sama hver sá flokkur er. Ég var það í síðustu ríkisstjórn og ég er það núna. Það þýðir að ég ber ábyrgð á stjórnarstefnunni og ég ber ábyrgð á þeim framkvæmdum sem ríkisstjórnin stendur fyrir. Þetta snýst ekki um hvaða einstaklingar sitja í ríkisstjórn, þetta snýst einfaldlega um að axla ábyrgð. Það er fráleitt að halda því fram að atvinnuleysi sé hagstjórnartæki því það vita allir hvílíkur brestur hefur orðið í okkar grunnstoð, sjávarútvegi og okkar efnahags- og markaðsumhverfi. Um alla Evrópu er talað um að það þurfi að efla fjárfestingar í einkageiranum til að ná sér á strik og við höfum verið í þessu umhverfi og þingmaðurinn þekkir það. Mig langar líka, vegna þess að ég var á þeim tíma formaður húsnæðisstjórnar, að nefna það að auðvitað var dálítið um að það var verið að sækja um félagslegar íbúðir með kannski hagsmuni byggingariðnaðarins í huga. En það var tekið á þessu máli harkalega að ef það var þannig að það var erfitt að úthluta til aðila eða það var sýnt að aðilar væru ekki undir tekjumörkum þá var bara einfaldlega ekki úthlutað til viðkomandi sveitarfélags næst. Ég trúi því ekki að þessu hafi verið breytt.
    Svo vil ég endilega líka láta í ljós að það er alveg óþarfi að láta liggja að því að Alþfl. sé að uppgötva eða fallast á vanda á þessum degi eða um þessar mundir, það er búið að vera að bregðast við vanda. Hverju sinni hafa verið væntingar um að viðbrögðin hafi verið þau réttu og að þau dygðu. Það var eitt meginsjónarmiðið með húsbréfakerfinu að kaupendur fengju eitt stórt lán og það væru jafnar greiðslur og fólk gæti gert sínar áætlanir.
    Ég komst ekki til að segja frá því hér áðan að það voru 300 millj. veittar til skuldbreytinga vegna erfiðleika og heildarfjárhæð samþykktra skuldbreytingarlána hjá byggingarsjóði eru um tæpar 155 millj. kr. og það eru því um 145 millj. enn þá til ráðstöfunar. En skuldbreytingarmálin eru afar flókin og erfið viðfangs og það hefur tekið og tekur langan tíma að vinna úr þeim eftir að þau koma inn á borð Húsnæðisstofnunar. Það er minna eftir af heimild til skuldbreytinga Byggingarsjóðs verkamanna eða einungis rúmar 18 millj. kr.
    Ég vil líka geta þess að það var þannig við greiðslumat að það var miðað við að um 20% af ráðstöfunartekjum færi til greiðslu húsnæðislána en húsnæðisstjórn hefur nýverið breytt reglum og nú er þessi viðmiðun 18%. En á sínum tíma þegar það var verið að meta þessi mál þá var reglugerðarheimildin 30% svo menn sjá hvaða breytingar hafa orðið þarna. Félmrn. hefur óskað eftir því við Húsnæðisstofnun að það verði gerð greining á ástæðum greiðsluvanda og greining á árangri aðgerða. Þessi úttekt er í vinnslu og þetta skiptir máli. Mér mundi líka finnast út af orðum hv. 12. þm. Reykv. hér áðan um að hækka hlutfallið mjög mikilvægt að átta sig á hver sé vandi fyrstu kaupenda, hvort hann sé stærri. Hvernig skiptist þessi vandi? Húsnæðisstofnun hefur unnið 90% af þeim málum sem hafa verið til afgreiðslu í sambandi við skuldbreytingar einungis 10% hafa lent í vinnslu hjá öðrum lánastofnunum. Þetta er e.t.v. vegna þess hversu sérhæft og vandasamt og flókið það er að taka á þessum málum þegar fólk kemur með allan sinn vanda og allar sínar skuldir inn á borð og biður um hjálp og það þarf að fara ofan í þetta. Óháð því hvað verður þá vil ég alla vega kanna möguleikana á að gera eitthvert átak í þessum málum og einn angi þess er að sjálfsögðu að ræða við bankana sem að hluta til eru líka með sérhæft starfsfólk.
    En vegna þess sem hér hefur verið nefnt í tillögunum og þessum b-lið þáltill. um að fjölga í starfsliði Húsnæðisstofnunar þá hef ég efasemdir um að það sé lausn, a.m.k. ekki skjót lausn, vegna þess hversu sérhæft málið er. En ég útiloka ekkert í þessum málum. Það þarf að gera átak til þess að ná utan um vandamálin og ég er einfaldlega að skoða það. Ég er búin að vera stutt og ég hef haft nauman tíma og ég mun hafa nauman tíma í þau verk sem mér hafa verið fengin og ég mun bara skoða þessi mál.
    Það var samþykkt að heimila frestun á greiðslum af lánum úr Byggingarsjóði ríkisins til samræmis við það sem var heimilað hjá Byggingarsjóði verkamanna ef lántakandi er í greiðsluvanda vegna langtímaatvinnuleysis, veikinda eða af öðrum óviðráðanlegum ástæðum. Eins og ég sagði verður að taka á þessum vanda og það er búið að vera að taka á honum þó að það hafi sýnt sig að það hafi ekki dugað. Þarna nefndi ég 300 millj. og einnig voru veittar 100 millj. til breytinga í félagslega húsnæðiskerfinu.
    Það hefur áður komið fram í þessari umræðu að það er verið að undirbúa í Húsnæðisstofnun að vera með mánaðargreiðslur. Það hefur líka verið sett í gang að skoða hvort lenging lána eða vera með fleiri möguleika í lánalengd sé eitthvað sem sé til bóta og eins og menn heyra eru þetta hugmyndir sem hafa verið settar fram áður en ég kem hér til. Ég er algerlega ófeimin að taka við vinnu frá öðrum, ekki síst þegar ég er sett þarna inn sem eins konar verkstjóri í kjölfar félaga minna en það er ekki þar með sagt að þetta verði endilega lausnirnar eða sú niðurstaða sem verður við skoðun.
    Mig langar líka að nefna eitt til viðbótar og það er varðandi gjaldþrotaúrskurðina sem hv. 9. þm. Reykv. kom inn á áðan og mér finnst nokkuð athyglisvert. Ég benti á að það voru 433 gjaldþrot fyrstu 8 mánuði ársins 1990 og þar af 280 gjaldþrot ungs fólks undir þrítugu. Ég er ekki stolt af þessu, ég var

stjórnarliði þá líka og var að gera hluti sem ég taldi rétta. Ég hef ekki hugmynd um það, ekki einu sinni enn þann dag í dag hvort þessi gjaldþrot voru afleiðing af einhverju sem sú ríkisstjórn gerði. Ég hélt því ekki fram þá og geri það ekki núna. En ég hef það á tilfinningunni að ef þetta væri nú þá væri einfölduð mjög skýringin á þessu.
    Þegar ég lít á þessi gögn þá sé ég að þau gjaldþrot eða réttara sagt nauðungaruppboð sem hefur verið beðið um hefur verið að fjölga, en það er ekki það sama og það sé samhengi á milli fjölda nauðungaruppboða og gjaldþrotabeiðna. Og meðan beiðnir um gjaldþrot hafa verið mjög margar, frá rúmlega þúsund 1988 og yfir 1.600 1989 og lækka niður í 1197 1991 og reyndar ekki nema 300 og eitthvað 1992 fram til 1. júlí, þá er það svo að raunveruleg gjaldþrotaskipti eru mjög mörg 1990 eða 688 og fækkar og 1992 einungis 65 fyrstu sjö mánuði ársins. Þetta segir okkur að það er mjög erfitt að sjá hvað af þessu er vegna einkamála og hvað væri e.t.v. vegna annarra hluta.
    Virðulegi forseti. Ég hefði hér gjarnan kosið að koma einnig inn á lengingu lána og jafnframt það sem hér hefur fallið um greiðsluaðlögun, en ég læt þetta nægja. Ég minni á að við eigum eftir að ræða þessi mál áfram, en þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur verið og bara fullyrði að ég hef mjög góðan vilja til að taka á þessum málum og ég lít svo á að þó að það séu ekki nema nokkrir tugir af heimilunum í landinu sem eru í vanda þá er það vandi.