Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:04:00 (1838)


[16:04]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Forseti. Ég vildi aðeins bæta við það sem frá var horfið í fyrri ræðu minni. Ég hafði nefnt það sem ég taldi aðalatriði í hugsanlegum aðgerðum eða væntanlegum. Ég vil leyfa mér að segja eftir ræður þingmanna hér og hæstv. félmrh. þá tel ég miklar vonir standa til þess að fyrir því sé vilji í þinginu að afgreiða frá núverandi löggjafarþingi heildstæðar aðgerðir til þess að taka á þeim alvarlega greiðsluvanda sem uppi er meðal fólks sem hefur keypt sér íbúð eða byggt.
    Ég vil koma inn á eitt atriði til viðbótar því sem nefnt hefur verið og það eru afföllin í húsbréfakerfinu. Það var á sínum tíma þegar húsbréfakerfinu var komið á laggirnar og reyndar urðu um að miklar deilur sem í sjálfu sér hafa ekki lægt svo mjög. Það er umdeilt, þetta lánakerfi, fyrst og fremst vegna þess að það byggist á þeirri hugsun eða þeirri framkvæmd öllu heldur að lána eða gefa út pappíra, ávísun á peninga án þess að fyrir liggi nokkur vitneskja um það hvort þeir peningar eru fyrir hendi. Það hefur því verið lagt út á markaðshagkerfið með þessa fjármögnun, með fjármögnun á þessari undirstöðulífsnauðsyn hverrar fjölskyldu sem er húsnæði. Og auðvitað eru pólitísk átök um það hvort menn eigi að hafa húsnæðislánakerfið í þessum markaðsfarvegi eða með öðrum formerkjum eins og fram til þessa hefur verið.
    Ég hef verið í hópi þeirra sem hef verið andsnúinn því að markaðsvæða þetta kerfi. Ég tel að þessar áherslur alþýðuflokksmanna, sem kalla sig nú stundum jafnaðarmenn, um að taka upp markaðsbúskap á sem flestum ef ekki öllum sviðum séu ekki réttlætanlegar og það þurfi a.m.k. að undanskilja ákveðin svið í þjóðfélaginu þessum lögmálum þeirra. En burt séð frá því. Þetta er nú orðin staðreynd og verður ekki farið út úr þessu lánakerfi í neinu hendingskasti þannig að menn verða þá að hugsa upp aðgerðir til úrbóta á þessum grundvelli sem lagður hefur verið og hugsa sér það þá sem aðgerðir til langs tíma hvernig menn komist frá þessu markaðskerfi.
    En afföllin eru afleiðing markaðskerfisins og þau nema gríðarlegum fjárhæðum það sem af er. Það er búið að lána út um 60 millj. kr. eða sem svarar því síðan húsbréfakerfið var tekið upp fyrir 5 árum, fyrir 60 mánuðum, þ.e. milljarður á mánuði, og afföll eru svona á að giska um 6--7 þús. millj. kr. Það er upphæð affalla svona á að giska. Þetta er ekki mjög nákvæmt, enda hefur það ekki verið tekið saman, en ég hygg að það sé ekki fjarri lagi að afföllin séu einhvers staðar á þessu bili, 6--7 milljarðar kr.
    Nú var það þannig að þegar þetta kerfi var tekið upp þá lýsti þáv. félmrh. því yfir oftlega, m.a. í viðtali í dagblöðum, að það mundu ekki verða nein afföll. Það var ein af forsendum kerfisins sem menn fengu í veganesti og varð til þess að menn, sumir hverjir, ákváðu að styðja það á sínum tíma, yfirlýsingin um að það yrðu ekki afföll. Menn hljóta að spyrja: Hvernig ætla stjórnvöld að mæta þessum vanda, mæta þessum afföllum því að hlutirnir hafa farið öðruvísi en ætlað var fyrst afföllin urðu svona mikil? Það hlýtur að leiða hugann að því að það sé réttlætanlegt að bæta þeim sem urðu fyrir þessum afföllum það að einhverju leyti og með einhverjum hætti. Alþýðusamband Íslands ályktaði um það á síðasta þingi sínu á Akureyri fyrir um það bil tveimur árum, einmitt um þetta affallavandamál og reisti þá kröfu að afföllin yrðu endurgreidd því fólki sem hafði verið að kaupa sína fyrstu íbúð. Það yrði umtalsverð búbót fyrir þann hluta lántakenda ef þessi krafa næði fram að ganga og framkvæmdin samkvæmt samþykkt Alþýðusambands Íslands var sú að endurgreiðslan færi beint inn á höfuðstól lánsins og lækkaði hann.
    Ég vil minna á þessa kröfu og halda henni fram í þessari umræðu þannig að það gleymist ekki hversu mikil áhrif afföllin eiga í þeim greiðsluerfiðleikum sem uppi eru. Það eru ekki bara breytingar á tekjum fólks eða öðrum högum sem hafa leitt af sér að menn hafa minni tekjur sem valda því að menn ráða ekki við skuldbindingarnar. Það eru líka aðgerðir eða hlutir sem eru öðruvísi eins og með afföllin og síðan aðrar aðgerðir stjórnvalda eins og vaxtahækkun o.s.frv. sem hafa breytt þessum forsendum.
    En það var margt, virðulegi forseti, sem hægt er að nefna og er ótalið og verður að bíða betri tíma til síðari húsnæðismálaumræðu. Ég vil að lokum nefna tvær eða þrjár tölur til þess að gefa mönnum upp stærðirnar í þessu máli og tengja það atvinnuleysinu. Eins og menn vita þá hefur orðið mikið atvinnuleysi á síðustu árum og m.a. að mati margra vegna þess að við höfum ekki fjárfest nægjanlega í atvinnuvegunum. Á síðustu fimm árum, á þeim tíma sem húsbréfakerfið hefur verið, þá hafa verið settar í það kerfi liðlega 60 þús. milljónir króna. Í atvinnulífið, þ.e. í hlutabréf í Atvinnutryggingarsjóð og í eignarleigum og fjárfestingarlánasjóði til atvinnulífsins eftir þessum fjórum farvegum hefur farið minni upphæð eða um 55 milljarðar kr. Þarna held ég að menn geti fundið hluta af skýringunni á atvinnuleysinu, að menn hafa sett of mikið af peningum í húsnæðislánakerfið, of lítið í atvinnulífið.