Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:12:42 (1839)


[16:12]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst gæta ákveðinnar tvöfeldni í þessum hugsanagangi að tala annars vegar um hvað þurfi að gera og það þurfi að auka lánin, lengja lánin og bregðast betur við vegna vanda fólks og síðan að koma með gagnrýni á það hve mikið hefur verið sett í þau lán sem hafa verið til boða vegna þess að þessi lán á þessum stað eru eingöngu fyrir heimili í landinu. Annaðhvort er maður meðmæltur því að svo mikið fjármagn hafi verið veitt til heimilanna og til láns og jafnvel viðurkenna að þurfi meira eða þá menn eru á annarri skoðun. Það þýðir ekki að slá svona úr og í.
    Aðeins vegna þess að sagt er að afföllin séu um 6--7 milljarðar kr., ég þekki ekki þá tölu. Það má vera að hún sé rétt en við skulum muna það að biðraðahugsunin var ríkjandi, nú verð ég að fara og fá lánið meðan það gekk svona alveg eins og var búið að vera með 86-kerfið. Það vakti væntingar, væntingar sem brugðust og það var orðin þriggja ára biðröð fram í tímann. Við skulum átta okkur á því að þetta byggðist á ákveðinni tortryggni gagnvart stjórnvöldum. Það er til umhugsunar fyrir okkur öll sem hér erum, fyrri stjórnvöld og núverandi stjórnvöld, að fólk trúði því ekki að það væri hægt að halda að sér höndum um hríð og bíða eftir að afföll minnkuðu og eftirspurn minnkaði af því að það var innbyggt í þetta kerfi. Það hugsaði: Ég verð að fara að fá mér þetta góða, langa lán strax áður en þeim verður breytt. Þetta er staðreyndin sem við stöndum frammi fyrir. Fólk trúði því ekki að þetta væri komið til að vera, væri til frambúðar og ef menn þyrftu ekki á því að halda núna, þá væri óhætt að bíða vegna þess að eftir hálft ár eða eitt ár þá gæti fólk keypt og skipt um íbúð og fengið þessi húsbréf án affalla. Auðvitað þurftu sumir að nýta lánamöguleikann strax en mjög margir af þeim sem fóru af stað á þessum tíma og gátu ekki aftur snúið var einmitt fólk sem kannski var tortryggið og treysti okkur ekki, að við værum komin þarna til frambúðar.