Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:31:51 (1844)


[16:31]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég á erfitt með að skilja það að hv. þm. leggi það til að ég semji um vexti. Og þó ég ætli ekki að tjá mig neitt um samninga sem hann hefur aftur og aftur komið að, enda liður í tillögu hans, þá lýsi ég þeirri skoðun minni að það er mjög mikilvægt að lífeyrissjóðirnir verði virkari í fjármögnun húsnæðislánakerfisins heldur en þeir hafa verið að undanförnu og það er mjög slæmt að þeir hafa dregið að sér hendur með kaup á bréfum.
    Björgunarsjóður, eins og hann var að nefna hér, er tillaga hv. þm. og Alþb. sem ég hef ekki og ætla ekkert að tjá mig um á þessari stundu. En eftir þessa umræðu vænti ég stuðnings við þær aðgerðir sem ég á eftir að koma með inn í þingið og ég vil líka lýsa því yfir varðandi orð hans um verkalýðshreyfinguna áðan að ég mun að sjálfsögðu ræða við alla þá aðila sem eru viljugir til og vilja stuðla að úrbótum fyrir láglaunaheimilin.
    Þingmaðurinn sagði að þingmenn væru að skilja að það þarf að bregðast við vanda. Ég er margbúin að rekja það hér að það er búið að vera að taka á vanda. Það er búið að vera að bregðast við vanda með ýmsum hætti og það eru aðgerðir í gangi og það eru aðrar í undirbúningi og ég vænti þess að okkur takist að taka á þeim málum sem út af standa og gera það besta sem hægt er og ég vænti stuðnings við það sem hér á eftir að koma inn.