Greiðsluaðlögun húsnæðislána

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 16:43:49 (1849)

[16:43]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég kýs að mæla fyrir þessum þingmálum tveimur sameiginlega þar sem efni þeirra er náskylt og þau eru í raun samhangandi og hafa verið frá öndverðu. Hér er á ferðinni annars vegar till. til þál. um mótun ferðamálastefnu og hins vegar frv. til laga um ferðaþjónustu. Þetta eru mál sem undirbúin voru og unnin á síðasta kjörtímabili og reyndar flutt þá sem stjtill. og stjfrv. en náðu ekki afgreiðslu. Frv. var til 2. umr. í efri deild sálugu á vordögum 1991 þegar þingi lauk, en mætti þar nokkurri andstöðu hæstv. núv. samgrh. og náði ekki fram að ganga.
    Þessi mál voru unnin af svokallaðri ferðamálanefnd, sem starfaði á árunum 1989 og 1990, og var þar unnið mikið starf eins og sjá má af skjölum þessum og fylgiskjölum. Nefnd sú var þannig skipuð að í henni sátu fulltrúar sem tengdust öllum stjórnmálaflokkum sem þá áttu fulltrúa á þingi, þar á meðal nokkrir alþingismenn og einnig ýmsir aðilar, sérfróðir um málefni ferðaþjónustunnar og starfandi í þeirri grein.
    Góð samstaða tókst um þetta nefndarstarf á sínum tíma og ferðamálanefndin skilaði sameiginlegum tillögum og voru þar engin sérálit. Þannig voru þau mál síðan flutt hér á þingi að í neðri deild tókst góð samstaða um afgreiðslu frv., enda var flestra manna mál að mjög brýnt væri og þarft að endurskoða þessa heildarlöggjöf um ferðamál. Því miður rofnaði sú samstaða þegar upp í efri deild kom og var þar fyrst og fremst á ferðinni andstaða núv. hæstv. samgrh., sem taldi sig ekki geta staðið að afgreiðslu þessara mála þrátt fyrir að flokksbræður hans bæði í ferðamálanefnd og neðri deild hefðu staðið að afgreiðslu þess og var þar m.a. nefnt af hálfu hæstv. núv. ráðherra að ekki væri nægjanlega vel að starfsskilyrðum greinarinnar búið í þessum þingmálum.
    Hins vegar hefur þannig tekist til á þessu kjörtímabili að málefnum ferðaþjónustunnar hvað þetta snertir, þ.e. varðandi endurskoðun á löggjöf og starfsskilyrðum ferðaþjónustunnar, hefur ekkert miðað. Í fyrirspurn sem hér var lögð fram á næstsíðasta þingi svaraði hæstv. samgrh. því þannig að sökum ágreinings milli sín sem samgrh. og fjmrh. eða fjmrn. kæmist hann ekkert áfram með endurskoðun málefna ferðaþjónustunnar og við það sæti. Nú er nokkuð liðið á síðasta þing þessa kjörtímabils og þessarar ríkisstjórnar og ekkert bólar hér á endurskoðun á þessum lögum. Það er auðvitað, hæstv. forseti, ákaflega bagalegt ef svo stendur af hálfu ríkisstjórnar og útséð auðvitað um það með þessu að nokkuð verði að gert á þessu kjörtímabili. Ég hef því valið það að endurflytja þessi þingmál á nýjan leik þannig að fyrir þinginu liggi a.m.k. einhverjar tillögur um aðgerðir á þessu sviði. Ég er reyndar þeirrar skoðunar eftir að hafa farið yfir þessi frumvörp og tillögur á nýjan leik að í öllum aðalatriðum mætti afgreiða þau eins og þau koma fyrir og engar þær meiri háttar breytingar hafi orðið á stöðu mála í ferðaþjónustunni sem kalli á umtalsverðar breytingar á þessum frumvörpum fyrir utan helst það eitt að væntanlega þarf að breyta ákvæðum einnar greinar frv. vegna aðildar okkar að EES-samningnum en þar er fjallað um skilyrði þess að stofna og reka ferðaskrifstofur og önnur slík fyrirtæki hér á landi og að sjálfsögðu þarf að taka inn í þau ákvæði laganna heimildir sem samrýmast núna skuldbindingum okkar um atvinnu- eða staðfesturétt borgara Evrópska efnahagssvæðisins hér á landi. En það er smávægileg breyting. Að öllu öðru leyti fullyrði ég að þessi heildarendurskoðun lagaákvæða um ferðamál stendur fyllilega fyrir sínu.
    Frv. gerir ráð fyrir því að sameinuð verði í ein lög helstu ákvæði sem nú eru a.m.k. á tveimur stöðum í löggjöfinni um ferðamál. Er þar hvoru tveggja átt við hinn opinbera þátt og stjórnsýsluþátt. Það eru lagaákvæði um Ferðamálaráð, Ferðamálasjóð og þátt stjórnvalda, en einnig um reksturinn sem slíkan og starfsskilyrði hans og aðstæður, leyfisveitingar, rekstur ferðaskrifstofa, veitingahúsa og annað því um líkt.
    Ef farið er yfir helstu breytingar frv. frá gildandi lögum þá má þar fyrst nefna að tilgangur laganna er skilgreindur í sérstökum markmiðskafla sem er nýmæli og eru þar markmið laganna eða frv. hin sömu og í megintillögugrein, till. til þál. um ferðamálastefnu. En þannig er samhengi þessara mála hugsað að framkvæmdarvaldið framfylgi á hverjum tíma og setji sér tiltekna ferðamálastefnu sem feli í sér tiltekin meginmarkmið sem síðan verði framfylgt og síðan verði þau í samræmi við þá löggjöf um ferðamál sem í gildi eru á hverjum tíma.
    Í öðru lagi er kveðið á um það í lögum sem ekki hefur verið að árlega skuli haldið ferðaþing sem

verði ráðgefandi samkoma um málefni ferðaþjónustunnar, eins konar samskiptavettvangur allra helstu hagsmunaaðila sem starfa á þessu sviði.
    Í þriðja lagi gera ákvæði frv. ráð fyrir því að skipan Ferðamálaráðs verði verulega breytt og þar verði fækkað fulltrúum úr 23 í 9 og síðan í kjölfarið er ekki gert ráð fyrir framkvæmdastjórn eins og nú er. Ráðherra mundi tilnefna einn fulltrúa í staðinn fyrir fimm samkvæmt gildandi lögum. Fjórir yrðu tilnefndir af öðrum og fjórir kosnir af ferðaþingi. Þarna drægi verulega úr því miðstýringarvaldi sem ráðherra nú hefur en hann skipar eins og áður sagði fimm fulltrúa í ráðið.
    Í fjórða lagi verða verkefni Ferðamálaráðs meira á sviði stefnumótunar en nú er, þ.e. Ferðamálaráð verði gert virkara sem stefnumótandi aðili.
    Í fimmta lagi fær skrifstofa ferðamála meira sjálfstæði, verður sjálfstæðari um allan almennan rekstur undir forustu ferðamálastjóra og er það nokkur breyting frá því sem nú er.
    Kveðið er á um samstarf Ferðamálaráðs við utanrrn. og Útflutningsráð um landkynningu og markaðsmál. Skort hefur á það að samstarf þessara aðila væri með formbundnum hætti.
    Heimild er veitt til Ferðamálaráðs til að taka þátt í rekstri ferða- og upplýsingamiðstöðva í öllum kjördæmum í samvinnu við heimaaðila, að ferðamálafulltrúar starfi á vegum ferðamálasamtaka í landshlutunum með stuðningi ríkisins.
    Lögð er áhersla á umhverfisvernd sem eitt af höfuðverkefnum Ferðamálaráðs og Náttúruverndarráði er samkvæmt þessu frv. tryggð aðild að ráðinu.
    Þá er lögð áhersla á að komið verði á formlegu samstarfi Ferðamálaráðs við opinbera aðila um málefni fjölsóttra ferðamannastaða til að tryggja umhverfisvernd og heimild er veitt samkvæmt frv. til að takmarka aðgang að slíkum stöðum ef nauðsyn krefur.
    Þá gerir frv. ráð fyrir því að tekjustofn vegna Ferðamálaráðs verði óbreyttur en að skilyrði megi setja um mótframlög frá hagsmunaaðilum til einstakra verkefna. Það er kunnara en frá þurfi að segja að hinn lögbundni tekjustofn Ferðamálaráðs sem eru 10% af sölutekjum Fríhafnarinnar eða fríhafna hefur verið skertur verulega undanfarin ár og því miður staðið í stað í krónutölu allt þetta kjörtímabil og þar af leiðandi að sjálfsögðu rýrnað nokkuð. Það tókst að hækka hann öll árin sem síðasta ríkisstjórn sat úr 25--30 millj. kr. sem hann stóð í 1988 í 68 millj. á árinu 1991 en hann hefur því miður síðan staðið fastur í þeirri krónutölu öll árin á þessu kjörtímabili og þar af leiðandi að sjálfsögðu rýrnað, þ.e. fjárveitingin, á sama tíma og tekjustofninn sjálfur, sölutekjur Fríhafnarinnar, hafa vaxið verulega þannig að hefði ferðaþjónustan notið þeirra og þeirrar aukningar í einhverjum sanngjörnum mæli þá hefði Ferðamálaráð nú til ráðstöfunar mun meira fé en það gerir. Þetta algera fjársvelti Ferðamálaráðs, hæstv. forseti, er mjög til vansa og háir allri framþróun á þessu sviði en ótvírætt er að Ferðamálaráð gegnir margvíslegum og mjög mikilvægum verkefnum jafnt við stefnumótun og þróun greinarinnar sem og við framkvæmd ýmissa mikilvægra þátta í okkar ferðamálum.
    Það er gert ráð fyrir því að lánstími Ferðamálasjóðs verði lengdur úr 15 árum í allt að 40 ár. Allt of skammur lánstími hefur lengi háð fjárfestingum á þessu sviði og fullkomlega óraunhæft að fjárfestingar geti skilað sér með svo skömmum hætti sem þessi lánstími krefst, ekki síst þegar það er haft í huga að nýtingartími ýmissa ferðaþjónustumannvirkja er afar skammur, oft ekki nema þrír eða fjórir mánuðir á hverju ári. Þeim mun meiri ástæða er til að lánsfjármagn á þessu sviði sé á hagstæðum kjörum og til langs tíma.
    Það nýmæli er inni í frv. að sett verði á fót áhættulánadeild við Ferðamálasjóð vegna þróunarverkefna þannig að Ferðamálasjóður geti beint tekið þátt í og hvatt til slíkra verkefna. Mörg nýstárleg ákvæði eru um skilgreiningu á ferðaþjónustuaðilum. Þar er tekið upp hugtakið ferðamiðlun sem tæki m.a. til ferðaskrifstofa, skipuleggjenda ferða, umboðssala og fyrirtækja sem reka tölvukerfi fyrir bókanir og upplýsingar. Mjög hefur skort á að sú flokkun sem í gildi er samkvæmt lögum nú fullnægi breyttum aðstæðum í ferðaþjónustunni og ber þar auðvitað ekki síst að nefna þá þröngu túlkun sem er á ákvæðum um ferðaskrifstofur, þ.e. að rekstraraðilar sem bjóða þjónustu sína eiga fyrst og fremst á því völ að vera eða vera ekki ef svo má að orði komast, ferðaskrifstofa. Séu þeir ferðaskrifstofa koma til háar tryggingar án tillits til umfangs rekstrarins, hvort á vegum viðkomandi aðila eru mörg hundruð eða jafnvel þúsund ferðamenn erlendis samtímis þannig að ef eitthvað fer úrskeiðis geti þurft á verulegum fjármunum að halda til að koma t.d. slíkum ferðalöngum heim, en þannig eru auðvitað tryggingar hugsaðar að þær séu fyrir hendi til að mæta slíkum óvæntum atvikum, eða hvort um er að ræða minni háttar rekstraraðila sem eru að selja fáeinum einstaklingum sína þjónustu. Og auðvitað er með öllu óraunhæft að litlir þjónustuaðilar á þessu sviði þurfi að setja sambærilegar tryggingar og stærstu ferðaskrifstofur landsins en þannig hefur þetta verið.
    Þá er enn gert ráð fyrir því að í staðinn fyrir lagaákvæði um flokkun veitinga- og gistihúsa sem eins og nú eru í lögum verði slíkt leitt til lykta með ákvæðum í reglugerð. Ýmiss konar þjónustu- og afþreyingarstarfsemi fyrir ferðamenn er gerð skráningarskyld þannig að hægt sé að afla upplýsinga um þá starfsemi sem er á þessu sviði, en að sjálfsögðu er ekki gert ráð fyrir því að slíkt yrði leyfisbundið frekar en nú er. Og síðast en ekki síst er lögð mikil áhersla á neytendavernd í þessari löggjöf og miklum mun meiri en er að finna í eldri löggjöf. Það má segja að ein af mörgum brotalömum núgildandi laga á þessu sviði sé sú að þar er lítið fjallað um neytendavernd þó að það kunni að einhverju leyti að hafa orðið bót

á því í þeim þætti ferðaþjónustunnar þar sem við eiga ákvæði nýlega settra laga um svonefndar alferðir.
    Ég sé, hæstv. forseti, ekki ástæðu til að fara öllu fleiri orðum um efni þessara þingmála. Ég vil að lokum leggja áherslu á það og undirstrika það af minni hálfu hversu gífurlega mikilvæg atvinnugrein ferðaþjónustan er og sem betur fer hefur nú á síðustu árum orðið nokkur breyting í þá veru að ferðaþjónustan er orðin viðurkennd sem grein meðal greina í okkar atvinnulífi. Það var ekki svo og satt best að segja með ólíkindum hversu fátæklegar upplýsingar lágu fyrir um þjóðhagslegt mikilvægi ferðaþjónustunnar og stærð hennar í íslenskum efnahagsbúskap alveg fram á síðustu ár. Eitt af mörgu mikilvægu við starf ferðamálanefndarinnar á sínum tíma á síðasta kjörtímabili var að ferðamálanefndin setti á fót starfshóp sem vann mikilsverðar þjóðhagslegar upplýsingar út úr hagskýrslum um umfang ferðaþjónustunnar og gildi hennar fyrir gjaldeyrisöflun og atvinnulíf. Það voru upplýsingar sem ekki höfðu legið fyrir áður, aldrei höfðu verið teknar saman og það brautryðjendastarf að mínu mati hefur átt sinn þátt í því að upplýsa um mikilvægi greinarinnar og þau miklu verðmæti sem hún gefur af sér. Til að mynda varð mönnum sú staðreynd ekki ljós fyrr en í kjölfar þess starfs að ferðaþjónustan er á eftir sjávarútveginum sennilega mikilvægasta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein landsmanna og veitir þúsundir starfa.
    Ferðaþjónustan er ein fárra greina sem er í vexti og hefur verið nær undantekningarlaust undanfarin allmörg ár, sum árin jafnvel í svo miklum vexti að einstöku menn hafa af því áhyggjur hvert stefni varðandi stóraukið álag á okkar ferðamannastöðum og náttúru en engu að síður er hitt mikilsvert og óneitanlegt í erfiðum tímum í okkar atvinnumálum þegar atvinnuleysi hefur haldið innreið sína í tíð þessarar ríkisstjórnar að það séu þó a.m.k. einhvers staðar vaxtarbroddar á ferð og ljós í myrkrinu og ferðaþjónustan er svo sannarlega eitt slíkt. Því miður hefur á engan hátt verið að henni búið í samræmi við þetta og nægir þar að nefna það sem ég hef þegar gert grein fyrir að það er til háborinnar skammar að löngu brýn endurskoðun lagaákvæða á þessu sviði skuli með öllu hafa orðið afvelta í tíð þessarar ríkisstjórnar sökum ágreinings ráðherra innan sama flokks. Það er ekki á nokkurn hátt frambærileg afsökun eða svar að vísa til þess þegar spurt er hvað dvelji þá endurskoðun sem er löngu tímabær og var raunar lýst yfir af hálfu ríkisstjórnarinnar munnlega og ég held reyndar einnig í stjórnarsáttmála að væri eitt af forgangsverkum þessarar ríkisstjórnar. Mér er að vísu sagt að nú sé búið að ráða mikinn snilling í sérstök verkefni í samgrn. til að sinna þessum málum, en það er fullseint í rassinn gripið, svo ekki sé meira sagt, þegar nokkrar vikur lifa eftir af þinghaldinu. Mun það koma ferðaþjónustunni fyrir lítið, a.m.k. í þessum skilningi séð, að einhverjar breytingar út úr slíku starfi nái lögfestingu á þessu kjörtímabili.
    Í öðru lagi má nefna að í ljósi þess sem borið var við í efri deild þegar þetta frv. var stöðvað á lokaspretti afgreiðslu vorið 1991 að í því fælust ekki, eða stefnu þeirrar ríkisstjórnar sem þá sat, nægjanlega hagstæð starfsskilyrði fyrir ferðaþjónustuna, þá er með endemum að rifja upp það sem einmitt hefur gerst á því sviði í tíð þessarar ríkisstjórnar. Það er fyrst og fremst það að álögur hafa verið auknar á ferðaþjónustuna í formi upptöku á virðisaukaskatti sem óumdeilanlega er erfiður biti fyrir greinina að kyngja í viðbót við verðlag sem fyrir er mjög hátt. Allir viðurkenna að kannski einn erfiðasti þröskuldur íslenskrar ferðaþjónustu sem hún þarf sífellt að vera að yfirstíga er mjög hátt verðlag hér á flestum þáttum sem til verðlagningar koma í þessari starfsemi, hvort heldur er verð á gistingu, bílaleigum eða annað því um líkt. Það er þess vegna sömuleiðis á þessu sviði heldur dapurleg uppskeran af starfi hæstv. núv. samgrh. sem fer með ferðamál eða á að fara með ferðamál samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands en þess sér harla lítinn stað að sú reglugerð sé virk hvað þetta snertir. Satt best að segja er mér til efs að öðrum málaflokki hafi verið dauflegar sinnt í annan tíma en ferðaþjónustunni á þessu kjörtímabili.
    Ég vona, hæstv. forseti, að hv. samgn. taki vel á móti þessum málum og taki þau til skoðunar í alvöru. Það kæmi að mínu mati vel til álita að afgreiða einhverja þætti þessara mála ef ekki næst samstaða um afgreiðslu á þeim í heild. Það eru til að mynda ýmis ákvæði sem er mjög brýnt að breyta og ég held að allir ættu að geta orðið sammála um t.d. að eru til augljóss hagræðis fyrir rekstur ferðaþjónustuaðilanna. Ef ágreiningur kynni að verða um önnur atriði eins og til að mynda um stjórnskipan ferðamálanna, samsetningu Ferðamálaráðs og annað því um líkt, þá mætti að sjálfsögðu skoða þann möguleika að fresta afgreiðslu slíkra ákvæða en taka það út úr sem samstaða væri um og afgreiða á þessu þingi fyrir kosningar. Það er mjög slæmt að þetta tefjist og því miður er það svo þegar kosningar fara í hönd og stjórnarskipti eru fram undan, sem yfirgnæfandi líkur eru á, hæstv. forseti, guði sé lof, að verði og gagnger breyting á samsetningu ríkisstjórnar eftir næstu kosningar, þá vill koma ákveðið uppihald í starf af þessu tagi eðli málsins samkvæmt því að nýir aðilar þurfa að fá tíma ( KÁ: Hvaða vonir ber þingmaðurinn í brjósti?) til að fara yfir málin. En auðvitað mundum við vonast til að þjóðin gæti ekki orðið svo gæfusnauð að næstum að segja hvaða samgrh. sem hún eignaðist stæði sig betur í þessum efnum en sá sem nú situr, þ.e. sem hefur bókstaflega ekkert gert í hátt í fjögur ár.
    Um væntingar og vonir ræðumanns, samanber frammíkall úr sal hvað snertir næstu ríkisstjórn, þá er held ég einfaldast að svara því þannig að mér mundi þykja hún þeim mun betri sem hún væri ólíkari þessari sem nú situr. Hef ég þá lokið máli mínu, hæstv. forseti, og legg til að frv. og tillögunni verði vísað til hv. samgn.