Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 17:46:12 (1852)


[17:46]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Örfá orð inn í þessa umræðu. Mér finnst þessi hugmynd um að rannsaka hvers vegna svo mikil töp hafa orðið í útlánum ýmissa banka og sjóða og lánastofnana sé út af fyrir sig góðra gjalda verð. En einhvern veginn finnst mér að ef menn á annað borð ætluðu að fara að rannsaka hvers vegna við höfum lent í þessum vanda þá verði að hafa þetta miklu umfangsmeiri rannsókn heldur en bara að snúa sér að því að skoða útlánatöpin, vegna þess að þau hafa fyrst og fremst komið til á síðari árum, en orsakirnar eru sjálfsagt að mörgu leyti aftar í tímanum.
    Við lifðum auðvitað í miklu verðbólguþjóðfélagi. Fyrir um 15 árum síðan ákváðu menn að fara

að verðtryggja fjárskuldbindingar og þegar var verið að selja mönnum þá hugmynd var þeim sagt að nú kæmi lágvaxtatímabil. Nú mundu menn fá lán, þeir yrðu auðvitað að borga lánið til baka og það væri eðlilegt, en það yrðu lágir vextir á þessum lánum. Það var talað um 1--3% vexti, man ég, þegar verið var að ræða þessi mál á þessum tíma. Það fannst auðvitað öllum að það væri eðlilegt að gera þá kröfu að menn borguðu skuldir sínar og einhverja vexti líka. En það vita auðvitað allir hér hvernig til tókst, að á eftir verðtryggingunni komu ekki lágir vextir nema stuttan tíma því vextir voru síðan gefnir frjálsir og okrið var innleitt í íslenskt efnahagslíf. Og það sem menn áður þóttu verðskulda tugthúsvist fyrir eru menn verðlaunaðir fyrir í dag og heiðraðir, þ.e. að hafa sem mestan arð af peningunum sínum og það er eins og það sé einhvern veginn allt öðruvísi starfsemi heldur en öll önnur. Það þykir ekkert tiltökumál þó menn græði á peningunum sínum og það helst sem allra mest, en það þykir okur og svívirðing ef einhver tekur meira fyrir vinnuna sína heldur en sá sem er við hliðina á honum. Þetta er svolítið merkilegt og ástæða til að velta því fyrir sér hvers konar siðferði er á bak við þennan hugsanagang sem virðist ráða með þjóðinni.
    Nú er ég ekkert að halda því fram að það eigi aftur að fara að refsa mönnum fyrir okur, það þýðir líklega lítið að bera fram slíka tillögu í dag, en ég held að verðlagseftirlit með því hvað menn hafa út úr peningum hljóti að þurfa að vera til staðar og aðhald og það meira heldur en það hefur verið á undanförnum árum.
    Á þessu tímabili sem vextir ruku upp þá gerðist það um leið að fjöldinn allur af ákvörðunum sem menn höfðu tekið, fjárfestingarákvörðunum, voru allt í einu orðnar rangar. Það var fjöldinn allur af þeim fyrirtækjum sem núna hafa farið á höfuðið undanfarin ár, þar tóku stjórnendur fyrirtækjanna ákvarðanir í kringum 1980 um fjárfestingar, um húsbyggingar, vélakaup og hvaðeina. Ég þekki fleiri en eitt og fleiri en tvö dæmi um það að menn lögðu mikla vinnu á sig við að rannsaka hvernig það mundi nú fara inn í framtíðinni miðað við það sem verið var að segja. Það sem hið opinbera, það sem alþingismenn og aðrir aðilar, bankamenn og aðrir voru að segja mönnum á þessum tíma. Eftir örfá ár þá var þetta allt tóm lygi. Og það er mínu viti skýringin á fjölmörgum gjaldþrotum í atvinnurekstri að þarna var komið á framfæri alröngum upplýsingum til þeirra sem voru að taka ákvarðanir.
    Ég tel að þeir sem spiluðu í verðbólgunni hafi í sjálfu sér --- það sé kannski í sjálfu sér ekki hægt að vorkenna mönnum sem töpuðu í þeirri rúllettu, þeir vissu hver áhættan var held ég flestir. En þegar búið var að innleiða verðtrygginguna og mönnum var boðið upp á það að taka verðtryggð lán vegna þess öryggis sem þar væri á ferðinni þá tel ég að stjórnvöld hafi tekið á sig mikla ábyrgð.
    En það gerðist fleira en það. Í kjölfarið á þessu kom ekki stöðugleikatímabil, það er svo langt í frá. Það kom tímabil með alls kyns verðgengi, gengisfellingum og síðan kannski hægari tímabilum á milli. Það var ekki nokkur vegur fyrir þá sem voru að stjórna fyrirtækjum í þessu landi að gera sér neina grein fyrir því hvort ákvarðanir sem teknar voru væru af einhverju viti teknar. Menn tóku kannski erlent lán og síðan kom ný ríkisstjórn. Ég nefni dæmi: Ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar, sem tók við haustið 1988, felldi gengið um 30% á níu mánuðum. Þeir sem höfðu tekið lán á þessum tíma fóru nú ekki aldeilis vel út úr því. Það voru orðnar rangar fjárfestingar eftir níu mánuði. Svona hefur þetta þjóðfélag leikið atvinnulífið og einstaklingana. Og ef menn ætla að fara að rannsaka útlánatöpin þá verða menn auðvitað að skoða margt og miklu fleira heldur en bara hvað fjárfestingarsjóðirnir hafa tapað, menn verða að skoða orsakirnar fyrir þessari kollsteyputíð sem við höfum verið að lifa.
    Það er þess vegna sem ég set ákveðið spurningarmerki við það að skoða þetta með þeim hætti sem hér er sett fram. Ég tel að það væri mjög góðra gjalda vert og hugmyndin er góð, að skoða þessa hluti, en ég tel að það þurfi að setja þá skoðun í samhengi við allt þetta ferli sem búið er að gerast í þessu þjóðfélagi á undanförnum 15--20 árum til að menn skilji hvað það var sem fór úrskeiðis. Það er nefnilega ekki hægt að segja eða halda því fram að bankastjórar, sem voru að reyna að meta það hverjum þeir ættu að lána peninga eða einhverjum sem stjórnuðu einhvers konar fjárfestingarlánasjóðum, Byggðastofnun eða hvað það nú allt saman hefur heitið, gætu út af fyrir sig haft meiri möguleika til að meta hvað bjó í framtíðinni heldur en bara almenningur í þessu landi. Því svo óskaplega hefur þetta verið fallvallt það sem menn hafa séð fram í tímann á þessu tímabili. En við getum haft gott af því að skoða það og þess vegna tel ég að það sé kannski ástæða til að gera það. En mér finnst að það þurfi þá að útvíkka hugmyndina dálítið meira en hér er gert.