Útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 18:18:48 (1856)


[18:18]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Sú tillaga sem hér liggur fyrir er allrar athygli verð og ég vil lýsa yfir stuðningi við meginefni tillögunnar að láta gera könnun á þeim kostum sem í boði eru til að bæta útsendingar á sjónvarpi og útvarpi til fiskimiða kringum landið. Ég skil ályktunartillöguna þannig að þar eigi menn við miðin innan 200 mílna fiskveiðilandhelgi en séu ekki á þessu stigi að tala um stærra hafsvæði. Þó að það sé auðvitað þannig að menn eigi ekkert að útiloka sig í þeim efnum til allrar framtíðar, þá held ég að það væri skynsamlegt að afmarka sig á þessu stigi við það svæði.
    Ég sakna þess að sjá ekki við þessa umræðu hæstv. menntmrh. því að það hefði verið fróðlegt að heyra frá honum hvað hann hefur látið vinna á þessu sviði í tíð sinni því vissulega er það svo að ráðherra getur ef hann vill ýtt fram málum og hann gæti sýnt stuðning sinn við þetta málefni með því að láta framkvæma að hluta til þessa athugun án þess að Alþingi álykti um það. Það breytir því ekki að þó hæstv. menntmrh. sé ekki hér til þess að greina okkur frá því hvað hann hafi gert í þessum efnum frá því að hann tók við þá er full nauðsyn á því að þessi athugun fari fram og ekki bara til þess að skila tölum um kostnað heldur líka um framkvæmdaáætlun því að það er vissulega nauðsynlegt að Alþingi gangi í framhaldi af könnuninni til þess að hrinda málinu í framkvæmd. Það er það sem brýnast er að koma verkinu áfram, þó að það sé auðvitað laukrétt eins og hv. flm. benda á að fyrsta skrefið sé að láta gera könnun á þeim möguleikum sem fyrir hendi eru til þess að hrinda þessu í framkvæmd og hvað þeir muni kosta.
    Ég vil benda á að Alþingi hefur ekki staðið sig nógu vel í þessu efni á undanförnum árum. Þar er ég ekkert sérstaklega að tala til núverandi ríkisstjórnar, heldur allt eins til þeirra flokka sem voru í ríkisstjórn þar á undan og jafnvel enn þar á undan því að eins og þingmenn þekkja sem hafa kynnt sér efnið í fjárlagafrv. þá er gert ráð fyrir því að Ríkisútvarpið verði af tekjum sem gert er ráð fyrir að það hafi, þ.e. aðflutningsgjöld af útvarpi og sjónvarpi sem eiga að renna í Framkvæmdasjóð Ríkisútvarpsins eru látin renna í ríkissjóð árið 1995 eins og mörg undanfarin ár. Þarna er um að ræða fjárhæð sem nemur verulegum upphæðum og þó að ég hafi það nú ekki við höndina núna þá held ég að ég megi fullyrða að þetta

sé á annað hundrað millj. á ári hverju sem stofnunin verður af en einmitt þessir fjármunir eiga að renna til þess að byggja upp dreifikerfi stofnunarinnar.
    Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að tryggingaþegar þurfi ekki að greiða afnotagjöld og það er áætlað að á næsta ári verði það um 8.300 tryggingaþegar sem njóti þessarar niðurfellingar og það þýði fyrir stofnunina, Póst og síma, að hún verði af tekjum upp á 175 millj. kr. sem hún annars hefði fengið. Og það er auðvitað galli á gjöf Njarðar þegar menn veita ívilnandi réttindi eins og þarna er sjálfsagt að gera að menn gera ekki ráð fyrir því að stofnunin þurfi eða fái tekjur á móti því sem niður er fellt. Þetta tvennt leiðir auðvitað til þess og hefur gert á undanförnum árum að stofnunin hefur ekki getað byggt upp sitt dreifikerfi með þeim hraða og í þeim mæli sem ætlast er til og satt að segja held ég að það sé orðið verulegt áhyggjuefni hversu mjög dreifikerfið hefur elst að hluta og hversu hægt hefur gengið að byggja það upp að öðru leyti.
    Um leið og menn lýsa yfir stuðningi við þetta mál, sem ég vil endurtaka að ég hef gert, þá þýðir það líka í mínum huga að maður er að segja það sem á eftir kemur, að maður sé tilbúinn að standa að því að stofnunin fái þær tekjur sem hún þarf til þess að byggja upp dreifikerfið. Það er aðalatriði málsins að Alþingi standi myndarlega að því að stofnunin geti rækt skyldur sínar í þessum efnum gagnvart sjómönnum sem og öðrum landsmönnum.
    Ég vil að lokum, virðulegi forseti, þakka flutningsmönnum fyrir að hreyfa þessu máli á Alþingi.