Útsendingar sjónvarps og útvarps til fiskimiða

40. fundur
Þriðjudaginn 22. nóvember 1994, kl. 18:24:45 (1857)

[18:24]
     Flm. (Guðjón Guðmundsson) :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, Guðmundi Hallvarðssyni og Kristni H. Gunnarssyni fyrir þeirra ágætu ræður og góðu undirtektir við þessa tillögu. Í ræðum þeirra komu fram margar ágætar ábendingar sem verða gagnlegar við vinnu nefndarinnar að þessari tillögu.
    Ég vil taka undir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði að Alþingi hafi sjálfsagt ekki staðið sig nógu vel á þessu sviði á liðnum árum. Hann benti á það að aðflutningsgjöld sem áttu að renna til Ríkisútvarpsins hafi verið hirt í ríkissjóð og það mun hafa skeð sl. sjö ár. Það má líka benda á að eins og fram kemur í umsögn frá framkvæmdastjóra tæknideildar Ríkisútvarpsins þá skipaði þáv. menntmrh. árið 1989 starfshóp til að fjalla um dreifingu og útsendingar Ríkisútvarpsins í tilefni af þáltill. sem samþykkt hafði verið á árinu 1988 um útsendingar sjónvarps og útvarps til landsins alls og fiskimiðanna. Í þennan starfshóp voru skipaðir fulltrúar menntmrn., Ríkisútvarps og Pósts og síma, en þessi hópur var aldrei kallaður saman þannig að vissulega má segja að menn hafi ekki staðið sig nógu vel en í sjálfu sér er kannski ekki ástæða til að hafa mörg orð um það sem liðið er en horfa til framtíðarinnar og vona að nú verði tekið á þessum málum með skipulegri hætti og Alþingi fylgi því eftir að svo verði gert.
    Ég vil svo ítreka það að ég þakka þessar ágætu undirtektir og vil ítreka það sem ég hef áður sagt að ég legg á það áherslu að hér er ekki bara um að ræða þau sjálfsögðu mannréttindi sjómanna að geta notið útsendinga ljósvakamiðlanna með svipuðum hætti og aðrir landsmenn heldur er hér ekki síður um að ræða mikið öryggismál eins og ég gat um í framsöguræðu minni.
    Ég vil svo að lokum láta þá ósk í ljós að þar sem umsagnir um tillöguna hafa þegar borist og eru jákvæðar, þá sjái hv. menntmn. sér fært að afgreiða þessa tillögu á jákvæðan hátt sem fyrst.