Fullgilding GATT-samkomulagsins

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:35:52 (1861)

[13:35]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég beini máli mínu til hæstv. utanrrh. Ég óska eftir því að hæstv. utanrrh. upplýsi hvernig hann metur stöðu mála varðandi fullgildingu GATT-samkomulagsins sem boðað hafði verið að yrði um næstu áramót, annars vegar hvernig það mál standi að mati hæstv. ráðherra og hvaða upplýsingar utanrrh. eða utanrrn. hefur um líkur á því að af þessu verði á tilsettum tíma eða síðar og þá hvenær.
    Í öðru lagi spyr ég hæstv. ráðherra hvað líði undirbúningi af okkar hálfu undir þessa fullgildingu. Væntanlega er enn ólokið ýmsum þáttum undirbúnings á heimavelli og á ég þar ekki síst við frágang á löggjöf vegna þeirra breytinga sem tilkoma GATT-samninganna og skuldbindinga samkvæmt þeim hefur á innflutningsmál okkar. Þar á ég ekki síst við innflutning á búvörum sem heimilaður verður með tilteknum hætti um leið og GATT-samningurinn gengur í gildi. Ég vil spyrja hæstv. utanrrh. hvað hann geti um þetta upplýst. Reyndar væri æskilegt að hæstv. landbrh. væri jafnframt til svara um þetta atriði en væntanlega er það svo að forræði málsins út á við er á hendi hæstv. utanrrh. og hæstv. ráðherra hlýtur að hafa yfirsýn yfir það í stjórnkerfinu hvernig undirbúning er háttað af hálfu einstakra fagráðherra.
    Það er afar bagalegt að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki hafa komið frá sér frumvörpum sem tengjast óhjákvæmilega frágangi þessa máls innan stjórnkerfisins og ætti að vera óþarfi að minna hv. alþm. á þá frægu endalausu deilu milli stjórnarflokkanna um landbúnaðarmál sem þessu efni tengjast. Ég inni einnig eftir því hvar sá hluti málsins sé á vegi staddur.