Fullgilding GATT-samkomulagsins

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 13:37:54 (1862)


[13:37]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Fyrst um líkurnar á staðfestingu Úrúgvælotu GATT-samninga, stofnun alþjóðaviðskiptastofnunar sem stefnt er að að taki til starfa eftir áramót. Til skamms tíma voru horfur á að þetta tækist allgóðar. T.d. var ég fullvissaður um það í byrjun október af fulltrúum bandarískra stjórnvalda að þrátt fyrir frestun afgreiðslu í bandaríska þinginu hefði verið samið um dagsetninguna 28. nóv. til staðfestingar í seinasta lagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Nú berast þær fréttir að það sé í óvissu. Menn tala um horfur í desember, en ég held að málið sé einfaldlega þannig vaxið að enginn geti fullyrt á þessari stundu með vissu um það hvort málið fari í gegn fyrir áramót á Bandaríkjaþingi. Það hangir allt annað á þeirri spýtu því að upphaflega stóð málið þannig að ef þetta hefði verið afgreitt í lok nóvember á Bandaríkjaþingi, þá lá ljóst fyrir að það yrði staðfest annars vegar af Evrópusambandinu og Japan og ráð var þá almennt fyrir því gert að alþjóðaviðskiptastofnunin tæki til starfa 1. jan. 1995. Því miður eru svör mín við þessum þætti spurningarinnar þau að þetta er í óvissu.
    Að því er varðar undirbúning heima fyrir, þá er tvennt um það að segja. Annars vegar er það svo að þáltill. um staðfestingu GATT-samningsins verður til umræðu hér á hinu háa Alþingi í byrjun næstu viku, mér hefur verið tjáð á mánudag. Að því er varðar undirbúning lagabreytinga sem varða einkum og sér í lagi búvörulög og nokkra aðra lagabálka, þá er nefnd starfandi undir forustu ráðuneytisstjórans í forsrn. með þátttöku annarra ráðuneyta. Sú vinna er allvel á veg komin en ekki lokið.