Biðlistar á sjúkrahúsum eftir smáaðgerðum

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:00:12 (1880)


[14:00]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Ég hef nýlega fengið yfirlit yfir fjölda aðgerða á spítölunum á landinu, bæði á árinu sem er að líða og á fyrra ári. Þær hafa aldrei verið fleiri. Það kom mér t.d. mjög á óvart að á Landakotsspítala eru aðgerðir orðnar álíka margar eins og á Borgarspítala þar sem spítalinn hefur stóraukið svokallaða elektíva-þjónustu. Flestir biðlistar eru núna styttri en þeir hafa nokkru sinni verið. Biðlistar t.d. eftir hjartaaðgerðum eru nú u.þ.b. 50 manns og hafa aldrei verið styttri þannig að flestallir biðlistar hafa styst.
    Ég hef beðið landlækni að gaumgæfa það hvernig staðan er núna. Hann treystir sér ekki til að gera það meðan verkfall sjúkraliða stendur yfir því þá má búast við að biðlistar lengist. En allar þær tölur sem við höfum haft um fjölda aðgerða á sjúkrahúsum, bæði utan og innan Reykjavíkur, benda til þess að aðgerðum hafi mjög fjölgað og biðlistar þá styst samsvarandi.
    Það má vel vera að það sé rétt hjá hv. þm. og ég ætla ekkert að draga það í efa að biðlisti eftir háls-, nef- og eyrnaaðgerðum sé enn langur. Er eitthvað til ráða í því? Já, það er alveg ljóst að sameining Borgarspítala og Landakotsspítala og sú verkaskipting sem fylgja mun í kjölfar sameiningarinnar mun verða til þess að smærri aðgerðir munu enn aukast á hinum sameinaða spítala. Þegar læknar á Borgarspítalanum geta nýtt sér aðstöðu Landakotsspítala þá er alveg ljóst að biðlistar munu enn styttast frá því sem verið hefur. En það kom mér mjög á óvart, ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir þær aðhaldsaðgerðir sem hefur verið beitt á sjúkrastofnunum þá skuli samt hafa náðst sá árangur 1993 og það sem af er árinu 1994 að það hafa aldrei verið gerðar fleiri aðgerðir á Íslandi heldur en eru gerðar núna.