Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:20:18 (1892)


[14:20]
     Flm. (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Það mál sem hér er til umræðu hefur dregist nokkuð og allnokkrir þingmenn tekið til máls og þakka ég þeim fyrir mjög málefnalega umræðu og jafnframt fyrir þær athugasemdir sem fram hafa komið við þetta frv. Ég get tekið undir margt af því sem hv. þm. hafa sagt og endurtekið það sem

fram kom þegar ég mælti fyrir frv. að við kvennalistakonur erum vissulega tilbúnar til að skoða þá útfærslu sem hér er lögð til, bæði varðandi skipan nefndarinnar og einnig hlutverk hennar. En það er fyrst og fremst við þær tvær greinar sem athugasemdir hafa verið gerðar.
    Ég get tekið undir það sem fram kom í máli hv. þm. Guðmundar Bjarnasonar. Hann benti á að útlánatöp hefðu orðið víða, í mörgum atvinnugreinum, þar á meðal í ferðaþjónustu, veitingarekstri og verslunum. Það hafa komið fram upplýsingar, m.a. hjá hv. þm. Einari Guðfinnssyni, sem sýna að einmitt í verslun og byggingariðnaði og fleiri greinum hefur verið um verulegt útlánatap að ræða. Þó að menn minnist á loðdýrarækt og fiskeldi er ekki þar með sagt að það séu verstu dæmin. Ég get tekið undir það, en þau voru þó himinhrópandi á árum áður. Þegar litið er nokkur ár aftur í tímann eru það kannski þau sem hafa mest verið í umræðunni og full ástæða til að skoða það sem þar gerðist. Og þar vil ég nefna sjónarmið sem hv. þm. Stefán Guðmundsson hefur sett fram. Reyndar hefur hann ekki tekið þátt í þessari umræðu, en hann nefndi að það væri athyglisverð spurning í þessu sambandi hvort menn hafi verið of fljótir til að klippa á, sérstaklega í fiskeldinu, að í stað þess að gefa fyrirtækjunum meiri tíma þá hafi menn verið of fljótir á sér. Eftir að hafa horft upp á mikið tap hafi stjórnendur sjóða og útlánastofnana einfaldlega verið of fljótir á sér. Það væri einmitt mjög fróðlegt að skoða þann hluta málsins.
    Nokkrir þingmenn hafa gagnrýnt að hér sé um einhverja sýndarmennsku að ræða og að hér sé fyrst og fremst horft á hina neikvæðu hlið. Eins og ég rakti í upphafi umræðunnar, þá var kveikjan að því að við kvennalistakonur smíðuðum þetta frv. fyrst og fremst umræðan um Landsbankann og það sem þar gerðist fyrir einu og hálfu ári þegar ríkisvaldið varð að grípa inn í með aðstoð við Landsbankann. Sú umræða öll vakti miklar og stórar spurningar um það hvernig hefði verið staðið að útlánum í bankastofnunum og hjá ýmsum sjóðum og hjá Byggðastofnun. En ég get tekið undir að vissulega er ástæða til að skoða þessi mál í miklu víðara samhengi, bæði að skoða hina efnahagslegu þætti sem hafa haft áhrif á rekstur fyrirtækja og eins að skoða allar hliðar þessa máls og setja í samhengi við það sem hér hefur verið að gerast. En það er ekki hægt að horfa fram hjá því að það kerfi sem hér hefur verið viðhaft við skipun í stöðu bankastjóra og bankaráða kann að hafa haft áhrif á þá þróun sem hér hefur orðið. Við erum að tala um útlánatöp upp á 38 milljarða á sl. fimm árum.
    Þeir sem hafa talað í umræðunni hafa einmitt bent á 2. gr. þar sem liggur undir að þarna hafi verið óeðlilega að verki staðið og ég ítreka að ástæða er til að skoða það. En það er líka ástæða til að skoða annað og einmitt mjög fróðlegt að fá yfirlit yfir þá þróun sem hér hefur orðið á undanförnum 10 árum og að við skoðum okkar efnahagsstefnu í víðu samhengi hver sem þar hefur átt hlut að máli.
    Varðandi skipun þessarar nefndar var legið nokkuð lengi yfir því af okkar hálfu hvernig í hana skyldi skipað. Ég get vissulega tekið undir það að við hér á hinu háa Alþingi höfum gengið nokkuð langt í því að leita til Hæstaréttar um skipan manna í ýmiss konar nefndir. Hæstiréttur er ein af þeim stofnunum sem við kannski treystum til þess að nálgast mál af óhlutdrægni og fyllstu alvöru, en ég get vissulega tekið undir að það hefur verið gengið nokkuð langt í því að kalla Hæstarétt til og ég ítreka það að við erum vissulega tilbúnar til að skoða skipan þessarar nefndar og gera breytingu þar á ef samkomulag mundi nást um það. Mér finnst mikilvægast að þessi nefnd verði skipuð og fram fari ítarleg rannsókn á þróun útlánatapa á unanförnum árum en það nákvæmlega hvernig nefndin er skipuð er ekki aðalatriðið í því máli heldur að við gerum okkur grein fyrir þessari þróun.
    Það hefur verið gagnrýnt varðandi hlutverk nefndarinnar að hún eigi sjálf að setja sér starfsreglur og leita svara við spurningum sem erfitt sé að fá svör við, en þegar um mál af þessu tagi er að ræða þá verður að vera ljóst hvað á að koma út úr rannsókninni. Hvað er það sem á að rannsaka? En ég ítreka að þetta atriði má að sjálfsögðu kanna nánar.
    Það kom hér fram nokkur útúrsnúningur varðandi það að þessi nefnd ætti að fara að rannsaka bankaeftirlitið og hvort síðan yrði ekki sett á laggir önnur nefnd til þess að rannsaka þessa nefnd. En málið er það að þessari nefnd er ætlað að hraða störfum sínum eins og segir í 4. gr. og skila af sér sem allra fyrst. Og ein af þeim stóru spurningum sem liggur að baki þessari tillögu er sú hvort ekki sé ástæða til að skoða bankaeftirlit Seðlabanka Íslands, hvort það er nógu öflugt og hvort það hefur staðið þannig að málum að eðlilegt sé. Ég vísa þá ekki síst til umræðunnar um Landsbankann þar sem kom fram nokkur gagnrýni á bankaeftirlitið og hvers vegna það hefði ekki gripið fyrr inn í. Bankaeftirlitið kom líka nokkuð inn í umræður um fjárfestingarfyrirtæki og hvernig á því stóð að stórt fjárfestingarfyrirtæki hér í borg fór á hausinn án þess að bankaeftirlitið hefði verið vakandi yfir því. Það er ástæða til þess að skoða þessi mál.
    Þar með er ekki verið að segja að það eigi að sakfella einhverja, að menn séu sekir um einhver afglöp eða hafi ekki sinnt starfi sínu. En eitthvað liggur þarna að baki. Eru það reglurnar eða hvað er það? Hvað er það sem veldur því að svona hlutir gerast?
    Mín niðurstaða er sú eftir þessa umræðu, virðulegi forseti, að það er vissulega ástæða til að setja á laggir nefnd til þess að kanna útlánatöpin. Það hefur komið fram verulegur stuðningur við það í umræðunni þó að menn greini nokkuð á um hvernig eigi að skipa nefndina og hvert hlutverk hennar eigi að vera, en ég ítreka að við erum tilbúnar til að skoða það mál nánar. Aðalatriðið er að þessi könnun fari fram þannig að við getum í tíma áttað okkur á þróuninni og þar dettur mér enn einu sinni í hug að vísa til reynslu Færeyinga sem fengu skýrslur ár eftir ár frá hagfræðingum sem voru að skoða ástandið þar og bentu á ýmis mistök sem þar voru á ferð en enginn hlustaði. Nú er ég ekki að gefa í skyn að við séum endilega á sömu leið, en við þurfum að skoða þessi mál. Við erum að tala hér um verulegt tap sem almenningur í landinu greiðir á endanum og full ástæða er til að skoða hvernig á þessu stendur og hvort þörf er á úrbótum í bankakerfinu og þeim sjóðum sem lána til atvinnuveganna og hvernig staðið er að vali á stjórnendum þessara stofnana og þessara sjóða.