Nefnd til að kanna útlánatöp innlánsstofnana

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:32:05 (1893)


[14:32]
     Einar K. Guðfinnsson :
    Virðulegi forseti. Varðandi það mál sem hér er verið að ræða sýnist mér nokkuð ljóst að einungis getur verið um að ræða tvenns konar hugmyndafræði sem býr að baki þegar við erum að tala um að skoða ástæður þess að orðið hafa útlánatöp í bankakerfinu og hjá einstökum útlánasjóðum í þjóðfélaginu. Annars vegar geta menn farið þá leið sem verið er að leggja til í frv. kvennalistakvenna, þ.e. að skoða einstök útlán og einstök útlánatöp. Eins og ég benti á í gær þýðir það gríðarlega vinnu langt aftur í tímann þar sem verið er að skoða nánast fjölmörg dæmi fram og til baka í bönkum og sjóðum. Það er annars vegar sú leið sem hægt er að fara. Eins og ég benti á í gær þá sé ég ekki betur þegar maður skoðar lögin um Seðlabanka Íslands en að hér sé verið að fara nákvæmlega ofan í verksvið bankaeftirlits Seðlabankans. Það er kveðið á um það mjög skýrt í lögunum um Seðlabanka Íslands hvert skuli vera hlutverk bankaeftirlitsins. Þegar maður les saman annars vegar lagatextann þar sem kveðið er á um hlutverk bankaeftirlitsins og ber það saman síðan við hlutverk þeirrar nefndar sem lagt er til í frv. að sett sé á laggirnar þá sýnist manni að nánast sé verið að leggja til að við stofnum nýtt bankaeftirlit, öðruvísi skipað bankaeftirlit sem fari í kjölfar þess gamla og skoði það sem bankaeftirlitið hafi átt að skoða.
    Ég sagði að vísu í dálitlum hálfkæringi hvort ekki yrði þá verkefni einhverrar annarrar nefndar að skoða verk þessarar nefndar og svo koll af kolli. Það mætti hugsa sér að það færi af stað einhvers konar eilífðarvél þar sem allir endurskoðendur og viðskiptafræðingar og lögfræðingar landsins gætu meira og minna komið að og þar með væri búið að tryggja atvinnu þessara manna að eilífu, amen. En það er kannski aukaatriði vegna þess að síðan er hin leiðin sem við hv. 5. þm. Vestf. nefndum í gær sem væri það að ræða þessi mál á miklu almennari nótum. Í stað þess að vera að fjalla um einstök útlán, einstaka þætti í starfi lánasjóða eða banka væri hægt að setja á almenna haglýsingu og velta fyrir sér hver sé ástæðan fyrir því að útlán hafi tapast þó ég hafi að vísu vakið á því athygli í gær að útlánatöpin hér eru talsvert minni en á Norðurlöndunum. Það getur verið ástæða fyrir okkur að velta fyrir okkur hver sé ástæða þess að þrátt fyrir ýmsar hremmingar í ytri skilyrðum atvinnulífsins þá hafi útlánatöpin verið minni hér en á Norðurlöndunum. En látum það nú liggja milli hluta. Hin aðferðin getur sem sagt verið sú að setja á einhvers konar almenna haglýsingu þar sem einhver ótilgreind nefnd færi ofan í það með almennum og breiðum hætti, skrifaði fræðilega ritgerð í Fjármálatíðindi þar sem þessu væri velt upp.
    Þetta er allt önnur aðferðafræði, allt önnur hugmyndafræði. Þess vegna vil ég segja það svo það fari ekkert á milli mála að ég tel að ekkert sé um það að ræða að við séum að gera hvort tveggja heldur finnst mér að við hljótum að gera annaðhvort ef við á annað borð höfum áhuga á að skoða þessi mál. Annaðhvort að setja á laggirnar nefnd sem vinni eins og bankaeftirlit Seðlabankans. Ég verð að játa að mér finnst það mjög óeðlilegt, mér finnst það fullkomlega ástæðulaust í rauninni að setja á laggirnar slíka nefnd. Hins vegar væri hægt að setja á laggirnar nefnd eða einfaldlega fela einhverjum tilgreindum aðilum að skoða það almennt hver kunni að vera ástæðan fyrir því að útlánatöpin hafi vaxið á síðustu árum miðað við það sem áður gerðist og ræða það síðan í samhengi við t.d. stefnumótun í efnahagsmálum, stefnumótun í gengismálum, vaxtaþróunina, vinnubrögð bankanna almennt og þar fram eftir götunum.
    Ég held nefnilega að aðalástæðan fyrir þeim vanda sem bankakerfið hefur komist í vegna útlánatapa sé sú að bankarnir hafa fylgt alrangri útlánastefnu eða öllu heldur alrangri vaxtastefnu. Þeir hafa lifað í tiltölulega vernduðu umhverfi hver fyrir öðrum án raunverulegrar samkeppni. Þeir hafa lokað sig af. Þeir hafa nánast getað boðið viðskiptavinum sínum hvað sem er fram á þennan tíma. Núna er það að vísu þannig að stærstu og öflugustu viðskiptavinir bankanna hafa getað brotist undan valdi þeirra, undan oki þeirra og eru farnir að leita annað eftir sinni fjármögnun. En eftir standa hinir, einstaklingarnir, verst stöddu fyrirtækin, öll minni fyrirtækin, minni sveitarfélögin o.s.frv., sem eru þá ofurseld oki bankanna. Eftir að ég átti þessa umræðu í gær þar sem ég kom inn á nokkuð af þessum hlutum þá var mér sagt frá dæmi. Ég vil að vísu ekki fara að verða eins og núv. seðlabankastjóri, fyrrv. formaður Framsfl., að rekja einstök dæmi en engu að síður er hér um að ræða dálítið athyglisvert mál.
    Maður fór í banka fyrir nokkrum dögum og leitaði eftir láni til fjárfestingar. Lánið sem honum bauðst var til tveggja ára og þegar hann skoðaði til hlítar þau vaxtakjör sem honum buðust, allan lántökukostnað, útsendingarkostnað á rukkunarseðlum og hvað þetta heitir, þá kom í ljós að við vorum ekki að tala um eins stafs tölu í fjármagnskostnaði. Þegar hann skoðaði dæmið til hlítar kom í ljós að raunverulegur fjármagnskostnaður stefndi í að verða 18% á ári. Ég nefndi í gær dæmi um það hvernig var verið að murka lífið úr fiskeldisfyrirtækjum með því að bjóða þeim vaxtakjör sem þýddu 20--25% vexti og fjármagnskostnað á ári. Það sér hver heilvita maður að þetta er vísasta uppskriftin að útlánatöpum framtíðarinnar. Ákvarðanir bankans af þessu tagi eru uppskrift og áskrift að útlánatöpum framtíðarinnar.

    Þess vegna segi ég að mér finnst ekki ástæða til að fara í þessi mál með þessum neikvæðu formerkjum sem mér finnst gæta í frv. heldur miklu fremur að velta fyrir sér almennt áhrifum ákvarðana af þessu taginu sem eru eins og í þessum tilvikum sjálfstæðar ákvarðanir bankanna sem eru ekki í neinu samræmi við það efnahagslega umhverfi sem hér ríkir, engu samræmi við útlánaeftirspurnina, engu samræmi við vaxtastig ríkisins, svo dæmi sé tekið, heldur tekið af bankakerfi sem lifir í vernduðu umhverfi fákeppninnar.
    Þess vegna, virðulegur forseti, tel ég að frv. sé alls ekki líklegt til að ná því sem mér finnst vera aðalatriði þessa máls og tel þess vegna og ítreka það að hér er spurning um grundvallarmál, spurning um grundvallarhugmyndafræði og aðferðafræði sem menn vilja beita. Það vildi ég að lægi alla vega skýrt eftir þessa umræðu að það er afstaða mín í þessu máli.