Umferðaröryggismál

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:42:56 (1895)


[14:42]
     Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum. Þetta er 203. mál á þskj. 229.
    Tillaga þessi felur í sér að dómsmrh. verði falið að gera framkvæmdaáætlun til fjögurra ára í umferðaröryggismálum og að áætlunin feli í sér aðgerðir til að draga úr umferðarslysum með sérstakri áherslu á að fækka óhöppum og slysum þar sem ungmenni eiga í hlut. Í tillögugreininni segir að áætlun skuli taka til m.a.:
    Aðgerða á sviði forvarna og fræðslu og annarra fyrirbyggjandi ráðstafana,
    breytinga á lögum og reglum um umferðarmál, þjálfun ökumanna og ökuréttindi,
    samþættingar umferðaröryggismála og stefnumótunar í samgöngumálum,
    aðgerða á sviði slysavarna og tillagna um fjármögnun.
    Ályktunin verði lögð fyrir Alþingi til afgreiðslu ásamt tilheyrandi lagafrumvörpum, ef þörf krefur, ef til lagabreytinga þarf að koma, eigi síðar en í október 1995.
    Það er kunnara en frá þurfi að segja, því miður, hæstv. forseti, að tíðni óhappa og slysa er mikil í umferðinni á Íslandi. Hún er sambærileg og í sumum hópum meiri en gerist í okkar nágrannalöndum

þar sem umferð á landi er þó mikil og umferðarhraði hár. Ísland er á svipuðu róli og hin Norðurlöndin hvað þetta snertir. Ef skoðuð er t.d. tíðni dauðaslysa á hverja 100 þús. íbúa þá liggur hún um eða rétt undir tíu og er þar með svipuð og á hinum Norðurlöndunum. Hún hefur þó verið í lægri kantinum en því miður er þróunin hér ekki jafnhagstæð síðustu árin og verið hefur á hinum Norðurlöndunum þar sem tíðni dauðaslysa hefur farið lækkandi en hún hefur nokkuð staðið í stað hér. Þá er það ljóst að tíðni óhappa og slysa í yngstu aldurshópunum, þegar í hlut eiga yngstu árgangar ökumanna, er óheyrilega há og stendur langt upp úr öllu öðru. Látnir í umferðinni hér hafa á undanförnum 15 árum eða svo verið að meðaltali 20--25 á ári, fæstir 17 en flestir 29 á sl. 15 árum líklega að einu ári undanskildu eða svo. Ef farið er aftur til ársins 1978 þá munu þetta vera ytri mörkin.
    Tíðni minni háttar slysa er geysilega vaxandi á sama tíma og fjöldi dauðsfalla og meiri háttar slysa eða mikið slasaðra og látinna hefur verið svipaður undanfarin ár, þetta á bilinu 250--400. Þar á bak við eru dauðsföllin sem áður voru nefnd og svo hin alvarlegu slys þar sem meiri háttar örkuml eða lömun eða annað því um líkt og varanlegir skaðar hljótast af. Það hlýtur að vekja sérstakar áhyggjur hvernig heildarslysafjöldinn hefur aukist síðustu árin þegar allt er talið eða úr um 700--1.000 á árunum upp úr 1980 og fram til 1990 en skráð slys, örkuml og dauðsföll eru nú síðustu þrjú árin á bilinu 1.150 til 1.450 og langflest á síðasta ári, árinu 1993, samkvæmt skýrslum Umferðarráðs.
    Ég rifja þessar tölur upp, hæstv. forseti, aðeins til að minna á að hér er auðvitað stórt og alvarlegt vandamál á ferðinni. Hér er á ferðinni málaflokkur þar sem mjög margir eiga um sárt að binda og óbætanlegt tjón verður, einnig mikill skaði og fjárútlát fyrir samfélagið. Því það er ljóst að umferðarslysunum fylgir gífurlegur kostnaður, bæði vegna umönnunar hinna slösuðu og vegna vinnutaps og örkumls sem af þeim hljótast, en einnig vegna þess að þar verður mikið beint tjón á ökutækjum og fleiri þúsundir og jafnvel yfir tugur þúsunda bifreiða lendir í því að skemmast á ári hverju í slysum.
    Slysin á unga fólkinu eru sérstakur og dapurlegur kafli út af fyrir sig. Það er þannig að öll ár sem slysaskýrslur taka til sem ég hef undir höndum þá er tíðni ökumanna í 17 ára aldurshópnum langhæst, þ.e. þeir ökumenn sem aðild eiga að umferðarslysum eru langflestir, öll árin, á aldrinum 17--18 ára og stendur slysatíðnin þar svo langt upp úr að það hlýtur auðvitað að vekja okkur til sérstakrar umhugsunar um það hvort ekki sé óhjákvæmilegt að grípa til einhverra ráðstafana gagnvart því máli sérstaklega. Ég vil í því sambandi minna á að fyrir tveimur árum síðan flutti ég, ásamt tveimur öðrum hv. þm., Kristínu Ástgeirsdóttur og Valgerði Sverrisdóttur, hæstv. forseta vorum, frv. til laga um breytingu á umferðarlögum þar sem reynt yrði að taka á þessu máli sérstaklega með því að breyta þjálfunar- eða réttindaferli ökumanna þannig að fyrsta hálfa árið sem yngstu ökumennirnir hefðu réttindi til að aka bifreið þá væru þau réttindi með vissum hætti takmörkuð og nefndust reynsluskírteini, þannig að þau veittu einungis réttindi til að stjórna bifreið ef með í för væri a.m.k. einn einstaklingur 21 árs að aldri eða eldri og hefði full réttindi sjálfur til að stjórna bifreið. Með þeim hætti væri komið í veg fyrir að á þessu viðkvæma aldursskeiði gætu þessir yngstu og óreyndustu ökumenn einir og sér eða kannski með jafnöldrum sínum farið út í umferðina á þessu hættulegasta tímabili í ævi hvers ökumanns.
    Hér var hins vegar valin sú leið, hæstv. forseti, að flytja tillögu um að taka á málinu með víðtækari hætti og er það afleiðing af því að flm. hefur undanfarið ár verið að hugleiða þessi mál og skoða talsvert. Það er orðin mín niðurstaða að það sem skorti á í þessum efnum m.a. sé samræming og stefnumörkun af þessu tagi, það sé einhver heildastæð áætlun til að vinna eftir, aðgerðir í baráttunni við umferðarslysin. Það er auðvitað ljóst að fjölmargir aðilar vinna ómetanlegt starf á þessu sviði og nefni ég þar auðvitað fyrst Umferðarráð, sem gegnir veigamiklu hlutverki. Það mætti einnig nefna hlutverk hins nýja slysavarnarráðs, lögreglu, Vegagerðar og fleiri aðila, en því miður er það svo að það er ekki til nein samræmd áætlun og samræmd stefnumörkun um aðgerðir á þessu sviði þar sem tekið er á málinu frá öllum hliðum. Það er alveg ljóst að það að ná tökum á umferðaröryggismálum og auka umferðaröryggi kostar samræmdar aðgerðir á fjölmörgum sviðum. Til þurfa að koma fyrirbyggjandi aðgerðir, fræðsla og forvarnir af ýmsu tagi, þar sem skólarnir eru ekki síst í lykilhlutverki. Það kostar samvinnu við fræðsluyfirvöld og slíka aðila. Það þarf í öðru lagi að fara yfir og endurskoða reglur og lög um umferðarmál, um þjálfun ökumanna, þá ekki síst þetta sem ég hef nefnt með yngstu ökumennina og hvernig að útgáfu ökuréttinda er staðið.
    Í þriðja lagi nefni ég samþættingu umferðaröryggismálanna og stefnumótunar í samgöngumálum. Sem betur fer hefur Vegagerðin til að mynda á síðustu árum tekið umferðaröryggisþáttinn í stórauknum mæli og af vaxandi þunga inn í sína áætlanagerð og vinnu og sér þess víða stað, eins og ég veit að vegfarendur þekkja. En þarna kemur fleira til, til að mynda áherslur í uppbyggingu samgöngumannvirkjanna, áhersla á auknar almenningssamgöngur o.s.frv. Það er t.d. alveg ljóst að einhver virkasta aðgerðin til að draga úr umferðarslysum í þéttbýli er að efla og bæta almenningssamgöngur og bjóða upp á þann valkost sem raunhæfan og hagkvæman fyrir sem flesta þannig að dragi úr umferðarþunganum og fleiri ferðist á öruggari máta í almenningssamgöngufarartækjum.
    Þá nefni ég auðvitað slysavarnirnar, því þar er nauðsynlegt að taka á jafnframt og þá á ég við þann þáttinn sem snýr að viðbrögðum við þegar orðnum slysum. Þar er að vísu komið til sögunnar hið nýja slysavarnarráð og er mjög mikilvægur áfangi, en þess ber auðvitað að geta að verksvið þess er mjög víðfeðmt, það tekur til slysavarna í víðasta samhengi, að segja má. Þar með eru umferðarslysin ekki nema afmarkaður þáttur af verksviði þess og full ástæða er til að skipuleggja starfið á því sviði sérstaklega.
    Að lokum nefni ég svo að sjálfsögðu fjárveitingar. Það er alveg ljóst að til þarf að koma aukið fjármagn til aðgerða á þessu sviði. Það þarf að gera þeim aðilum kleift sem sinna slysavörnum og eru að fást við umferðarslys að auka aðgerðir sínar á því sviði. Það er bæði rétt og skylt vegna þess að okkur ber auðvitað að gera allt sem í okkar valdi stendur til að draga úr slysum og reyna að fækka dauðsföllum og varanlegu örkumli sem af umferðarslysum hlýst. En það er líka hægt að leggja á það þann mælikvarða að e.t.v. er fátt ábatasamara eða arðvænlegra fyrir þjóðarbúið en einmitt að reyna að draga úr þeim kostnaði sem alvarlegum umferðarslysum er samfara og auðvitað öllum slysum á þessu sviði. Það er viðurkennt að þessi slys kosta samfélagið hundruð milljóna og milljarða kr. á ári hverju og þess vegna er það einnig frá þeirri hlið mikilvægt atriði að leggja til þess meira fjármagn að draga úr því tjóni sem þarna hlýst. Það má fullyrða að þeim auknu fjármunum sem í þetta fengjust yrði síður en svo kastað á glæ.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt, hæstv. forseti, að taka upp skipulögð vinnubrögð af þessu tagi. Ég fullyrði að einmitt með samræmdum aðgerðum á grundvelli markmiða og áætlana, eins og hér er flutt tillaga um, hefur í ýmsum málaflokkum tekist að ná miklum árangri. Það má nefna þar auðvitað ýmis fordæmi um framkvæmdaáætlanir á einstökum sviðum. Það má til að mynda nefna heilbrigðisáætlun og þau markmið sem þar er unnið eftir samkvæmt þeirri áætlun. Ég tel að umferðaröryggismálin séu að því leyti til mjög hliðstæð. Einnig mætti nefna framkvæmdaáætlanir í einstökum málaflokkum eins og vegáætlun og aðrar slíkar, þar sem hugsunin er í raun og veru hin sama, að vinna eftir skipulegri áætlun til langs tíma á grundvelli settra markmiða sem menn stefna að.
    Ég nefni í greinargerð sem möguleika að setja sér það markmið að draga úr umferðarslysum um fjórðung fram að aldamótum og hafa það sem sérstakt keppikefli að ná þeim árangri í yngstu aldurshópunum þar sem tíðnin er hæst.
    Til að rökstyðja að unnt sé að ná þarna árangri þá vil ég leyfa mér að nefna tvö ár eða tvö ártöl og geta menn síðan farið í skýrslur um umferðarslys og tíðni óhappa hér á landi til að skoða þau. Ég nefni árið 1968, þegar hægri umferð var tekin upp. Það er enginn vafi á því að sú mikla fræðsla, sá mikli áróður og sú mikla kynning sem þá fór fram á umferðaröryggismálum leiddi til þess að stórlega dró úr óhöppum þvert ofan í það sem e.t.v. hefði mátt ætla þegar umferðin var færð af vinstri kannti yfir á þann hægri og menn höfðu auðvitað fulla ástæðu til að óttast að það gæti skapað ýmis vandamál í umferðinni. Þvert á móti varð niðurstaðan sú, eins og flestir sjálfsagt þekkja, að verulega dró úr slysum. Sama á við um árið 1983, þ.e. norræna umferðaröryggisárið. Þá var sömuleiðis lagt í mikla fræðsluherferð og kynningu með það að markmiði að draga úr slysum og það bar mikinn árangur. Þessi tvö ártöl og þær aðgerðir sem þeim tengjast eru til marks um það að með markvissu starfi og fræðslu og aðgerðum er hægt að ná miklum árangri.
    Ég hvet til þess að hv. samgn., sem ég legg til að fái mál þetta til umfjöllunar, gefi því góðan gaum og athugi það rækilega. Það er mikil þörf á því, hæstv. forseti, að á þessum málum sé tekið.
    Að lokum legg ég til, hæstv. forseti, að þessari till. verði vísað til síðari umr. og hv. samgn.