Umferðaröryggismál

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 14:58:42 (1896)


[14:58]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir þá tillögu sem hér var mælt fyrir um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum. Það er mjög þarft og gott mál sem hér er vikið að og hefði auðvitað átt að vera búið að taka á fyrir lifandi löngu og okkur Íslendingum til skammar að við skulum ár eftir ár horfa upp á hin voðalegu slys sem hér verða án þess að grípa inn í. Auðvitað hefur verið gripið til aðgerða eins og t.d. að lögleiða bílbelti, sem hafa orðið til þess að dauðaslysum hefur fækkað, en það er svo margt annað sem er hægt að gera og á að gera.
    Það hefur komið fram í greinum sem Brynjólfur Mogensen, yfirlæknir slysadeildar Borgarspítalans, hefur skrifað, að kostnaður við slys í heild hér á landi er talinn vera um 10 milljarðar á ári. Þar af eru umferðarslys um 5 milljarðar. Ef við horfum á þann heildarkostnað sem er nú við heilbrigðiskerfið hér á landi gefur auga leið að með því að draga úr slysum og þá ekki síst umferðarslysum er um leið hægt að draga mikið úr kostnaði við heilbrigðiskerfið, að ekki sé nú talað um þá mannlegu óhamingju og þær hörmungar sem einstaklingar og fjölskyldur verða að líða vegna slysa.
    Það vakna margar spurningar varðandi það hvernig hægt er að draga úr umferðarslysum og þó að þær töflur sem birtar eru hér með tillögunni sýni að ástandið hér á Íslandi sé ekki verra heldur en á hinum Norðurlöndunum, þá er það nógu slæmt og ekki síst sú staðreynd þegar við skoðum hverjir það eru sem valda slysum og hverjir það eru sem eru fórnarlömb þessara slysa. Þar eru auðvitað langsamlega mest áberandi ungir piltar, 17, 18, 19 ára gamlir piltar. Ég vil einmitt varpa fram þeirri spurningu, sem ég hef

reyndar áður vakið athygli á hér í umræðum um þessi mál, sem er það hvort bílprófsaldur sé ekki allt of lágur. Hvort ein helsta aðferðin til þess að ná niður slysum sé einfaldlega sú að hækka aldursmörkin. Nú veit ég að þessi hugmynd hefur ekki fengið undirtektir og menn hafa ekki farið þessa leið í öðrum löndum og þess eru dæmi að aldursmörk eru jafnvel lægri heldur en hér, t.d. í Bandaríkjunum.
    En það breytir ekki þeirri staðreynd og þeirri skoðun minni að 17 ára gamlir strákar, 17--18 ára, eru einfaldlega ekki nógu þroskaðir til þess að fara með þessi tæki. Ég hef stundum velt því fyrir mér að ef við værum að fá bíla á markað núna, ef bílar væru ný uppfinning, hvort nokkrum manni dytti í hug að láta þessi tæki í hendurnar á 17--18 ára gömlum strákum. Ég segi strákum vegna þess að það er staðreynd og það þarf ekki að vitna í fræðimenn til þess að sanna það, ég þekki það m.a. af minni reynslu sem kennari, að það er mikill munur á strákum og stelpum akkúrat á þessum aldri. Það er bara líffræðileg og félagsleg staðreynd að stúlkur eru þroskaðri á þessum aldri. Það er kannski erfitt að koma því í lög að gera greinarmun á milli kynjanna hvað þetta varðar, en þetta er bara staðreynd. Ég held að við þurfum að horfa á það jafnvel þó að við bætum fræðsluna og kennsluna, að þá er spurning hvort það er nóg, hvort þetta sé eðlilegt. Ef við miðum t.d. við flugvélar og ýmis önnur stór tæki, þá gilda þar önnur aldursmörk. Og bílar eru náttúrlega svo miklu fleiri og þar af leiðandi hættulegri umhverfinu heldur en önnur farartæki að það er virkilega þess virði að velta þessu fyrir sér hvort þarna þurfi að verða breyting á miðað við þann gríðarlega kostnað sem einstaklingar og samfélag bera og það mikla tjón sem samfélagið bíður vegna þessara slysa.
    Önnur leið í þessu máli, sem líka er vert að velta fyrir sér, eru sektir og upphæð sekta. Ég er kannski ekki nógu vel að mér um það, en ég þykist þó vita að t.d. í Bandaríkjunum eru sektir vegna umferðarlagabrota miklu hærri heldur en hér tíðkast og hver eru áhrifin? Í frv. er fyrst og fremst samanburður við Norðurlöndin en það væri vissulega fróðlegt að fá samanburð við önnur lönd, bæði í Evrópu og ekki síst í Bandaríkjunum, þar sem hefur einmitt verið tekið miklu harðar á umferðarlagabrotum.
    Ég heyrði fyrir tilviljun pistil í útvarpinu í morgun frá Bandaríkjunum þar sem var verið að segja frá ákveðnu bæjarfélagi í Bandaríkjunum sem kom upp öflugri löggæslu á þjóðvegum í nágrenninu og hafði haft upp úr krafsinu gríðarlegar tekjur fyrir bæjarfélagið með því að sekta menn fyrir of hraðan akstur. Þetta er nú meira sagt til gamans en hitt, en það þarf virkilega að velta því fyrir sér hér hvort sektir vegna umferðarlagabrota séu ekki einfaldlega allt of lágar til þess að hafa eitthvert forvarnagildi.
    Ég vil líka gera athugasemd við það eða það hefði verið afar fróðlegt að fá kynskiptar upplýsingar í fskj., fróðlegt að sjá þann mun sem er á körlum og konum í þessu dæmi öllu saman, vegna þess að ég veit, eftir að hafa skoðað þannig töflur, að það er mjög mikill munur á kynjunum þegar slysin eru skoðuð, sem einmitt segir okkur það að sá hópur sem fyrst og fremst þarf að beina athyglinni að eru ungir piltar. Þeir piltar sem eru að taka bílpróf og eru sem sagt reynslulitlir ökumenn. Þarna er mjög sláandi munur.
    Að öðru leyti, hæstv. forseti, tek ég af heilum hug undir þessa tillögu og mér finnst þetta hið besta mál og vona svo sannarlega að það fái forgang hér. Mér hefur fundist við vera allt of sofandi hvað þetta varðar. Samanburður við önnur lönd segir okkur ekki allt. Við erum lítil þjóð og okkur munar svo sannarlega um hvern einasta einstakling. Kannski af því hvað nálægð milli manna er hér mikil þá verðum við meira vör við það en aðrar þjóðir þegar slys eiga sér stað og þegar fólk deyr í umferðinni eða fólk bíður örkuml til æviloka og við eigum að gera allt sem við getum til þess að draga úr slysum og helst að finna leiðir til þess að koma með öllu í veg fyrir þau, en ég hygg þó að það verði seint gert.
    Virðulegi forseti. Ég vildi bara koma að þessum athugasemdum svona til umhugsunar og segi að lokum, virðulegi forseti, að ég vona að þessi tillaga nái fram að ganga.