Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:36:06 (1899)


[15:36]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Heilbr.- og trmrn. á ekki í neinni deilu við sjúkraliða. Þvert á móti. Heilbr.- og trmrn. hefur alltaf haft gott samstarf við þessa heilbrigðisstétt. Sem heilbr.- og trmrh. hef ég t.d. beitt mér fyrir því að reyna að verja störf sjúkraliða á sjúkrahúsum með bréfi sem ég skrifaði til þeirra á sínum tíma og hefur síðan verið ítrekað af þeim sem tók við af mér. Ég hef líka beitt mér fyrir því að fá að festa í lög réttindi og skyldur og starfsöryggi þessa hóps. Það er því mesti misskilningur að einhver deila sé á milli heilbrrn. og sjúkraliða.
    Ég hef einnig gert mér far um það að reyna að fylgjast með framvindu þeirrar launadeilu sem nú á sér stað, ekki vegna þess að ég sé í færum til að leysa hana heldur hef ég viljað fylgjast með frá báðum hliðum og reyna að leggja mitt af mörkum til þess að þessi deila komi sem allra minnst við starfsemi sjúkrastofnana sem er náttúrlega ógerlegt því vandi þeirra eykst með degi hverjum. Það er að sjálfsögðu fjmrn. sem fer með launamál og hefur forsjá launamála með höndum. Mín ósk er sú að það verði samið sem allra fyrst við sjúkraliða. Það er sú eina ósk sem ég hef og get komið á framfæri við kollega mína í ríkisstjórninni. Ég trúi ekki öðru en samningar takist á milli sjúkraliða og fjmrn. eins og ávallt hefur gerst. Ég vona að það geti gerst sem allra fyrst.