Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:37:53 (1900)


[15:37]
     Finnur Ingólfsson :

    Virðulegi forseti. Deiluaðilar í kjaradeilum sem þessum eru ekki öfundsverðir og það er vandaverk að komast í gegnum slíka deilu. Því miður finnst mér að samninganefnd ríkisins hafi með yfirlýsingum í fjölmiðlum og með sínum gerðum verið að velta allri þeirri ábyrgð sem hvílir á báðum samningsaðilum í þessu sambandi yfir á annan samningsaðilann sem eru sjúkraliðarnir í þessari deilu. Það er grafalvarlegt þegar slíkt er gert.
    Þetta gera þeir með því að segja að kröfur sjúkraliða séu ekki skýrar. Hlýtur ekki að vera eitthvað að samninganefnd sem daglega situr á fundum með sjúkraliðum og hefur ekki skilið kröfur sjúkraliða eins og þær hafa birst þegar við sem fylgjumst með þessu úr fjarlægð í gegnum fjölmiðla erum með það alveg á hreinu hverjar þessar kröfur eru? Kröfurnar eru ekkert aðrar en sú launastefna sem fyrsti tónninn hefur verið sleginn í af hálfu þessarar ríkisstjórnar með samningum við aðrar stéttir sem vinna við sambærileg starfskjör.
    Það getur vel verið að menn hafi gert mistök að mati ríkisstjórnarinnar í þeim samningum. Það ætla ég ekki að leggja mat á. En staðreyndin er sú að þar hefur fyrsti tónninn verið sleginn og kröfur sjúkraliða eru auðvitað í samræmi við það. Það er því mikil ábyrgð sem hvílir á ríkisstjórninni sem heild vegna þess að það er ríkisstjórnin sem mótar launastefnuna og það er ekki hægt af hálfu hæstv. heilbrrh. að segja: Ég á gott samstarf við sjúkraliða. Það er hæstv. fjmrh. sem þarf að leysa þessa deilu. Það væri því fróðlegt að vita hvort er mat hæstv. fjmrh. þar sem Sjálfstfl. hefur lýst því yfir að það eigi að semja við láglaunastéttirnar, hvort hæstv. fjmrh. telji að sjúkraliðarnir séu láglaunastétt eða ekki.