Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:51:26 (1906)


[15:51]
     Tómas Ingi Olrich :
    Virðulegur forseti. Í viðkvæmu máli eins og þessu er eðlilegt að stjórnarandstaðan vilji slá sér upp. Vegna þess hver málshefjandinn er þá er hins vegar nauðsynlegt að vara hér við ákveðinni tegund af samningum. Það sem skiptir máli í þessu fyrir sjúkraliðana sjálfa er að kaupmáttaraukningin sem samið verður um verði varanleg. Það vill svo til að sá sem hér stendur átti í hatrammri kjaradeilu meðal kennara við hv. málshefjanda, Svavar Gestsson, hv. þm., og hv. þm. Ólaf Ragnar Grímsson, sem þá var fjmrh. Í því máli var svo að eftir mjög kostnaðarsamt og erfitt, að mig minnir fimm vikna verkfall var gerður tímamótasamningur við kennarastéttina, tímamótasamningur. Sá samningur var nú ekki betri en svo að ríkisstjórnin sá sig tilneydda til þess að gera hann að engu nokkrum mánuðum seinna. Þess vegna vil ég koma því fram hér að það sem skiptir máli fyrir sjúkraliða í kjarabaráttu þeirra er að ná fram varanlegri kaupmáttaraukningu, kaupmáttaraukningu sem er með þeim hætti að hún verði ekki tekin aftur með ráðstöfunum ríkisstjórnar hvort sem það er þessi ríkisstjórn eða önnur því dæmin sanna að það þarf oft ekki mikið til til að ekki sé staðið við stóru orðin.