Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:55:47 (1909)


[15:55]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Það er einmitt kjarni málsins sem fram kom hjá hv. 4. þm. Reykv. Sjálfstfl. hefur gert um það sérstaka samþykkt á sínum flokksráðsfundi að það eigi að hækka laun láglaunastétta. Sjúkraliðar eru láglaunastétt. Hæstv. fjmrh. hefur greinilega ekki lesið þessa samþykkt og þess vegna er þessi yfirlýsing frá hv. 4. þm. Reykv. tímabær.
    Ég held að það sé líka nauðsynlegt að láta það koma fram út af orðum hv. þm. Tómasar Olrich sem lagði gott til málanna eins og venjulega í þessari stofnun að hér er ekki um það að ræða að einstakir þingmenn séu að slá sér upp. Ef hann heldur að menn séu hér í þessari stofnun í því skyni einvörðungu þá er það misskilningur. Menn eru væntanlega hér í þessari stofnun til þess að láta gott af sér leiða og til að hafa áhrif. Hver er staðan í dag? Hún er þannig: Sjálfstfl. hefur lýst því yfir að það eigi að hækka laun þessa fólks. Alþingismenn úr öllum flokkum hafa lýst því yfir. Heilbrrh. hefur lýst því yfir. Alþýðusambandið hefur lýst því yfir. BSRB hefur lýst því yfir og Morgunblaðið hefur lýst því yfir. Í raun og veru má segja að með þjóðinni allri er víðtæk samstaða um að það á ekki að nota kjaramál sjúkraliða sem stíflu í launaþróun í landinu en það er það sem hæstv. fjmrh. er að gera og það er ódrengilegur leikur.
    Og ég segi líka, hæstv. forseti, við hæstv. heilbrrh.: Orð hans breyta engu. Hann hefur engan raunverulegan áhuga á að leysa þessa deilu. Hann hefur bara áhuga á að tala. Hann hefur ekkert gert. Hann hefur bersýnilega ekki rætt þessa deilu innan ríkisstjórnarinnar né heldur á öðrum vettvangi þar sem hann getur haft áhrif ef hann vill, bæði sem talsmaður heilbrrn. en líka sem valdamesti ráðherra Alþfl. sem munar ekki lítið um í þessu sambandi, þannig að ef hæstv. ráðherra vill gera eitthvað í deilunni, þá getur hann

það. En hann hefur hins vegar ekki gert það til þessa og það er í raun og veru alvarlegasti lærdómurinn af þessari umræðu að hæstv. heilbrrh. hefur brugðist skyldu sinni sem forustumaður Alþfl. og sem heilbrrh. líka.