Vinnudeila ríkisins og sjúkraliða

41. fundur
Miðvikudaginn 23. nóvember 1994, kl. 15:58:17 (1910)


[15:58]
     Heilbrigðisráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Virðulegi forseti. Verkföll heilbrigðisstétta eru alltaf mjög erfið. Það er svo nú eins og svo oft áður. Það er erfitt að leysa slíka launadeilu, einkum og sér í lagi ef hún stendur lengi. Ég hef þá trú að þessi launadeila verði leyst og ég hef þá trú einnig að það verði best gert með því að menn setjist í alvöru yfir vandamálið sem þarf að leysa og takist á við lausn þess. Það verður ekki gert í þingsölum. Og að láta sér detta í hug að það sé einhver illvilji ráðamanna sem hér ráði ferð eða menn vinni ekki sín heimaverk, það er ekki rétt. Við höfum áhuga á því að leysa þessa deilu og ég hef trú á því að hún verði leyst.
    Hv. þm. sem hér talaði áðan hefur átt sæti í heilbrrn. þegar alvarlegar kjaradeilur komu upp, t.d. eins og þegar kom upp alvarleg kjaradeila lækna að mig minnir vorið 1982. Það mál var leyst með samningum, virðulegi forseti, sem eru nú ekki til fyrirmyndar og hafa skapað mikla gagnrýni hjá láglaunastéttunum í heilbrigðiskerfinu þannig að ég held að sú lausn sem þar var fundin sé ekki til fyrirmyndar og hafi ekki verið til þess að jafna launakjör heilbrigðisstéttanna. ( SvG: Ráðherrann heldur sig við nútímann.)