Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 10:57:45 (1915)


[10:57]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Ég stend einungis upp til að þakka hæstv. félmrh. fyrir það frv. sem hér er til umræðu. Ég tel þetta mjög mikilvægt frv. og nauðsynlegt á margan hátt. Hér er verið að gera lagabreytingar m.a. vegna þeirra breytinga sem gerðar voru í janúar 1993 um flutning yfirstjórnar barnaverndar frá menntmrn. til félmrn. Hér er bryddað upp á ýmsum mjög athyglisverðum nýjungum í þessu frv. og allar stefna þær að einu marki, að efla vernd barna og ungmenna og um það hljótum við að vera sammála og einhuga.

    Mesta breytingin í þessu frv. frá því sem gömlu lögin segja til um er hin nýja barnaverndarstofa. Það sem vekur spurningar í huga manns er hvort hér sé ekki um gífurlega stóra ríkisstofnun að ræða. Hér verða eflaust margir sérfræðingar saman komnir sem nauðsynlegt er að hafa á snærum slíkrar stofu en vegna þess að þessi stofa á að sjá um landið allt og þessi málefni á landinu öllu þá spyr maður sig hvort það hefði kannski verið skynsamlegra að hafa þrjár til fjórar slíkar stofur á landinu þannig að þær væru nær vettvangi. Þessari barnaverndarstofu er ætlað að hafa yfirumsjón með barnaverndarnefndum um allt land sem er mjög mikilvægt því mjög margar barnaverndarnefndar eru illa í stakk búnar til að taka því verkefni sem þær eiga að gera og oft er návígið mjög mikið og gott að fá utanaðkomandi aðila sér til aðstoðar. En sú spurning vaknar í huga mér hvort skynsamlegra hefði verið að hafa kannski þrjár minni stofur þannig að það yrði ekki eitt svona stórt batterí á ferðum. Kannski kann það að hafa verið skoðað og það sé útilokað á einhvern hátt en ég fæ þá svör við því frá ráðherra.
    En eins og fram kom í orðum hans hér áðan þá á þessi barnaverndarstofa að veita barnaverndarnefndum leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi fjölskylduvernd og útlausn barnaverndarmála. Að hafa eftirlit með störfum barnaverndarnefnda, þar á meðal heimta frá þeim ársskýrslur.
    Mér finnst nú kannski að það þurfi aðeins meiri skýringar við varðandi eftirlit með störfum barnaverndarnefnda vegna þess að það segir nú ekki allt í ársskýrslum og ég sé ekki hér í greinargerð nákvæmlega hvernig þessu eftirliti á að vera háttað.
    Í þriðja lagi að hafa yfirumsjón og eftirlit með stofnunum og heimilum sem ríkið rekur og styrkir. Þetta er mjög eðlilegt ákvæði. --- Að hafa umsjón með vistun barna og ungmenna á stofnunum og heimilum sem ríkið rekur og styrkir á grundvelli laga þessara.
    Að hlutast til um að settar verði á fót stofnanir og heimili skv. 2. og 4. mgr. 51. gr. laga þessara.
    Ég tek undir með hæstv. ráðherra sem sagði að lítil einkarekin heimili hafi komið mjög vel út. Ég tek undir að það eigi að stuðla að því að úrlausn ungmenna, sem á þessum heimilum þurfa að halda, verði sem mest á litlum og einkareknum heimilum.
    Að veita barnaverndarnefndum fulltingi við öflum hæfra fósturforeldra.
    Þá kem ég aftur að því sem ég sagði áðan, að ég tel að þeir sem eru nær vettvangi séu kannski betur í stakk búnir til að aðstoða við þetta val.
    Að hlutast til um að fram fari þróunar- og rannsóknarstarf á sviði barnaverndar.
    Þetta er mjög mikilvægt starf og svona stór og öflug stofnun er náttúrlega mjög hæf til þess þar sem þarna munu margir sérfræðingar á þessu sviði vera saman komnir.
    Síðan á þessi stofnun að annast fræðslu um barnavernd, einkum fyrir barnarverndarnefndir og starfsmenn þeirra.
    Það er ekkert smátt sem þessari stofnun er ætlað og ég tel að umræðan um þessi mál sé mjög mikilvæg og frv. sé á margan hátt mjög merkileg nýjung og ég ætla að endurtaka þakkir mínar og vona að ég fái svör við þeim spurningum sem ég hef hér fram sett.