Vernd barna og ungmenna

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:14:02 (1917)


[11:14]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil sömuleiðis þakka félmrh. fyrir þetta frv. sem hér liggur fyrir og fyrir endurskoðun á þessum mikilvæga lagabálki um vernd barna og ungmenna. Ég vil einnig fagna þeim gestum sem hér eru komnir á þingpalla.
    Sérstaklega vil ég fagna þeirri hugmynd sem kemur fram í frv. um að hér verði sett á stofn svokölluð barnaverndarstofa. En það er eins og fram hefur komið hér í ræðum annarra fundarmanna mjög

mikilvægt að vel takist til um framkvæmd hennar starfa, því þarna er um mjög mikilvæg störf og nýtt bákn, ef svo má að orði komast, þannig að ég vona að vel takist til.
    Hér eru lagðar til veigamiklar breytingar á núgildandi lögum, m.a. hvað varðar þau meðferðarúrræði sem til eru á þessu sviði. Því tel ég afar mikilvægt að frv. fái vandaða meðferð í félmn.
    Á nýliðinni ráðstefnu Barnaheilla um mannréttindi barna kom fram m.a. það viðhorf að ekki ríki nægilegur friður um mál er varða forræðissviptingar og önnur viðkvæm mál er snerta tengsl barna og foreldra. Þar var sagt frá því fyrirkomulagi sem tíðkast á nokkrum hinna Norðurlandanna, að dómstólar komi inn í slík í mál í stað þess að styðjast alfarið við úrskurði barnaverndarnefnda og barnaverndarráðs. Þetta fyrirkomulag þykir tryggja betur réttarstöðu bæði foreldra og barna. Á ráðstefnunni voru tekin dæmi um ýmislegt sem fer miður í núverandi kerfi og ég kannast vel við slík dæmi sem fyrrv. meðlimur í barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
    Þessi hugmynd fékk mjög góðar undirtektir á ráðstefnunni og tel ég fulla ástæðu til að kanna hana nánar hér því að allt verður að gera til að um þessi viðkvæmu mál ríki friður og að allir aðilar hafi fullt traust til þeirra úrræða sem yfirvöld grípa til. Ég vona því að vel takist til við lokagerð þessa frv., en mér þótti dálítið skrýtið í greinargerð fjmrn. að það virðist vera ýjað að því að kostnaðurinn við barnaverndarstofu eigi að koma af því sem sparast vegna í núverandi meðferðarheimila og ég vona bara að það verði ekki til þess að þau meðferðarúrræði sem við bjóðum upp á verði verri eða hafi minni gæði. Ég vona að það verði ekkert sparað til að við búum sem best að þeim börnum sem helst þurfa á því að halda hér á landi.
    Ég fagna því þessu frv. og vona að það fái vandaða umfjöllun og nái fram að ganga á þessu þingi.