Skoðun kvikmynda

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 11:35:29 (1922)


[11:35]
     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum. Með þessu frv. er stefnt að því að fella saman í heildstæða löggjöf ákvæði um bann við ofbeldiskvikmyndum, sbr. lög nr. 33/1983, og ákvæði um skoðun kvikmynda til að meta sýningarhæfi þeirra fyrir börn en slík ákvæði voru áður í lögum um vernd barna og ungmenna, nr. 53/1966.
    Við samningu frv. þessa var höfð hliðsjón af tillögum nefndar sem menntmrn. skipaði árið 1987 til að endurskoða lög um bann við ofbeldiskvikmyndum og skoðun kvikmynda. Þá nefnd skipuðu Snorri Olsen, deildarstjóri í fjmrn., Haraldur Johannessen, þáv. formaður Barnaverndarráðs Íslands, og Þórunn J. Hafstein, deildarstjóri í menntmrn., sem jafnframt var formaður nefndarinnar.
    Að tillögu nefndarinnar var á það fallist að nefndin miðaði í starfi sínu við það að fella saman í einn lagabálk þágildandi lagaákvæði um skoðun kvikmynda, þ.e. ákvæði VI. kafla þágildandi laga um vernd barna og ungmenna og laga um bann við ofbeldiskvikmyndum, nr. 33/1983.
    Við umfjöllun ráðuneytisins á tillögum nefndarinnar var leitað umsagnar og álits ýmissa aðila en lokagerð frv. var unnin í menntmrn. Við samningu frv. var nokkuð vikið frá tillögum nefndarinnar. Tók frv. mið af því meginsjónarmiði að breyta í sem minnstu fyrri löggjöf um bann við ofbeldiskvikmyndum og skoðun kvikmynda en taka þó nauðsynlegt tillit til nýrra aðstæðna. Jafnframt er á því byggt að löggjafinn hefur með fyrrgreindri lagasetningu metið þörfina á að vernda börn og ungmenni fyrir skaðvænlegum áhrifum ofbeldiskvikmynda, svo ríka að hún réttlætir hömlur af því tagi sem frv. gerir ráð fyrir.
    Augljóst er að hafi sú þörf verið aðkallandi fyrir áratug eða svo hefur síst dregið úr henni á seinni árum.
    Rétt er að vekja athygli á því að við setningu nýrra laga um vernd barna og ungmenna árið 1992 stóð yfir endurskoðun löggjafar um skoðun kvikmynda og um bann við ofbeldiskvikmyndum. Því er ekki í þeim lögum að finna ákvæði um skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsum. Brýna nauðsyn ber til þess að treysta lagagrundvöll skoðunar kvikmynda í kvikmyndahúsum og því er í þessu lagafrv. að finna sambærileg ákvæði um þetta efni og voru í áður gildandi lögum um vernd barna og ungmenna.
    Tilgangur þessa lagafrv. er að stemma stigu við sýningu kvikmynda þar sem gróft ofbeldi er birt án þess að þjóna tilgangi upplýsinga eða listar, svo og að vernda börn eins og kostur er gegn öðru kvikmyndaefni sem talið er þeim skaðvænlegt. Ofbeldi í kvikmyndum og sjónvarpsefni færist mjög í vöxt og nú á seinni tímum einnig í svokölluðum tölvuleikjum. Við þessu verður að sporna af öllum mætti líkt og aðrar þjóðir hafa gert.
    Hér á landi hefur verið í gildi löggjöf um skoðun kvikmynda allt frá árinu 1966. Árið 1983 voru sett lög um bann við ofbeldiskvikmyndum og um skoðun myndbanda. Sú skoðun kvikmynda sem hefur farið fram á vegum Kvikmyndaeftirlitsins hefur gefist vel og hefur í flestum atriðum tekist gott samstarf milli þess og eigenda kvikmyndahúsa og myndbandaleiga. Það má segja að enginn eðlismunur sé á ofbeldi í kvikmyndum annars vegar í kvikmyndahúsum og á myndböndum og hins vegar í sjónvarpi. Það er þó nánast ógjörningur að koma við fyrirframskoðun allra kvikmynda eða annars myndefnis sem sýna á í sjónvarpi og á það einkum við um það sjónvarpsefni sem dreift er um gervihnetti. Hins vegar er brýnt að innlendum sjónvarpsstöðvum berist með greiðum hætti upplýsingar frá kvikmyndaskoðunarnefnd um niðurstöður nefndarinnar sem sjónvarpsstöðvar geta haft hliðsjón af við ákvörðun dagskrár.
    Hér er minnt á ákvæði 1. mgr. 22. gr. tilskipunarráðs Evrópusambandsins frá 3. okt. 1989 um samræmingu tiltekinna ákvæða í lögum og stjórnskipunarfyrirmælum í aðildarríkjum um sjónvarpsrekstur sem er hluti af samningi um EES, svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Aðildarríki skulu gera viðeigandi ráðstafanir til þess að tryggja að sjónvarpssendingar, sem lögsaga þeirra nær yfir, innihaldi ekki dagskrárefni, sem gæti haft alvarleg skaðvænleg áhrif á líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, einkum og sér í lagi dagskrár, sem í felst klám eða tilefnislaust ofbeldi. Þetta ákvæði skal einnig ná til dagskrárefnis, sem líklegt er til þess að skaða líkamlegan, andlegan eða siðferðilegan þroska barna og ungmenna, nema þegar tryggt er, með vali á útsendingartíma eða með einhverjum tækilegum ráðstöfunum, að börn og ungmenni á því svæði er útsendingin nær til muni ekki að öðru jöfnu heyra eða sjá slíkar útsendingar.``
    Þetta var úr tilskipun Evrópusambandsins.
    Sérsjónarmið kunna að sínu leyti einnig að eiga við um skoðun tölvuleikja en í þessu frv. er gert ráð fyrir því að unnt verði með reglugerð að fella svokallaða tölvuleiki undir hliðstæða skoðunarkvöð og kvikmyndir lúta. Myndefni af þessu tagi er tiltölulega nýtt fyrirbæri en í örri útbreiðslu og kann að reynast full ástæða til að fylgjast með því hvaða viðfangsefni börnum eru fengin á þeim vettvangi og setja nánari reglur um tilhögun skoðunar á tölvuleikjum.
    Frv. gerir ekki ráð fyrir stórfelldum breytingum á tilhögun kvikmyndaskoðunar frá því sem tíðkast hefur. Fjöldi skipaðra skoðunarmanna hefur ekki verið bundinn í lögum en þeir hafa í raun verið sex talsins undanfarin ár og hér er gert ráð fyrir því að það haldist óbreytt. Tekið er upp heitið kvikmyndaskoðunarnefnd fyrir skoðunarmannahópinn og gert ráð fyrir að einn nefndarmanna gegni starfi forstöðumanns en sú framkvæmd hefur tíðkast um árabil.
    1. gr. frv. er efnislega óbreytt frá ákvæðum núgildandi laga. Bann á innflutningi, framleiðslu og hvers kyns dreifingu ofbeldiskvikmynda nær til allra slíkra kvikmynda hvort heldur þær eru ætlaðar til sýninga í kvikmyndahúsum, sjónvarpi eða í öðrum myndmiðlum innan íslenskrar lögsögu.
    Skilgreining á ofbeldiskvikmynd er hin sama og verið hefur í lögum um ofbeldiskvikmyndir. Sama

gildir um skilgreiningu á ,,kvikmynd`` að því frátöldu að nú er tekið fram að fréttaefni, auglýsingar og fræðsluefni sé undanskilið efnissviði laganna.
    Í 2. gr. er kveðið á um skipan sérstakrar nefndar sem annast skoðun kvikmynda og mat á sýningarhæfi þeirra. Í reynd hefur slík starfsemi verið við lýði á grundvelli laga um bann við ofbeldiskvikmyndum og laga um vernd barna og ungmenna og reglugerðar um skoðun kvikmynda hjá Kvikmyndaeftirliti ríkisins.
    Æskilegt er að skoðunarmenn kvikmynda hafi til að bera menntun á sviði uppeldisfræði, sálfræði, kvikmyndagerðar, fjölmiðlafræði, lögfræði, afbrotafræði eða öðrum sviðum sem hlutverk þeirra tengist, en ekki þykir ástæða til þess að binda slíkar kröfur í lögum. Skoðunarmenn kvikmynda samkvæmt fyrri lögum hafa verið tilnefndir af Barnaverndarráði einvörðungu. Í samræmi við þær breytingar sem gerðar voru á starfssviði Barnaverndarráðs með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, er hér lagt til að í stað Barnaverndarráðs tilnefni félagsmálaráðherra þrjá fulltrúa í kvikmyndaskoðunarnefnd og þykir það eðlilegt þar sem yfirstjórn barnaverndarmála hefur nú færst til félmrn. með starfi sérstakrar deildar í því ráðuneyti. Jafnframt verði kvikmyndaskoðunarnefnd skipuð einum fulltrúa að fengnum tillögum Félags kvikmyndagerðarmanna og einum fulltrúa að fengnum tillögum dómsmrn, auk þess sem menntmrh. skipar einn nefndarmanna án tilnefningar.
    Hlutverk kvikmyndaskoðunarnefndar er fyrst og fremst að skoða kvikmyndir og meta sýningarhæfi þeirra og móta stefnu um þau atriði sem eins og áður er vikið að mun helst byggjast á barnaverndarsjónarmiðum. Við það er miðað að forstöðumaður nefndarinnar fáist við eða sjái um daglegan rekstur, þar með talið færslu skráa og gerð heildaryfirlits yfir skoðaðar myndir og enn fremur merkingar kvikmyndaeintaka og önnur framkvæmdaatriði.
    Fjallað er um hlutverk kvikmyndaskoðunarnefndar í 3. gr. frv. en hlutverkið er að meta hvort um ofbeldiskvikmyndir er að ræða og hvort kvikmyndir séu við hæfi barna. Gert er ráð fyrir að aldursmörk þau sem sýningarhæfi kvikmynda miðast við séu ákveðin með reglugerð.
    Þá er nú kveðið á um að mat kvikmyndaskoðunarnefndar á sýningarhæfi kvikmynda geti verið mismunandi eftir því um hvers konar myndmiðla er að ræða.
    Það er mikilvægt að ákvarðanir nefndarinnar séu í ákveðnu formi og aðgengilegar aðilum og almenningi. Ef takmarkanir eru settar á sýningu eða dreifingu kvikmynda er áskilið að kvikmyndaskoðunarnefnd rökstyðji niðurstöður og að þær niðurstöður séu opinberar.
    Í 4. gr. er kveðið á um skyldu til þess að koma kvikmyndum til skoðunar.
    Kveðið er á um gjaldtöku vegna skoðunar. Í meginatriðum er miðað við að gjaldtaka vegna skoðunar kvikmynda breytist ekki frá því sem nú er en gjöld vegna skoðunar kvikmynda eru nú þrenns konar:
    1. Sérstakt gjald fyrir skoðun kvikmynda í kvikmyndahúsum
    2. Sérstakt grunngjald vegna skoðunar myndbanda að viðbættu mínútugjaldi sem tekur mið af mismunandi lengd kvikmynda á myndböndum.
    3. Miðagjald, þ.e. sérstakt gjald vegna kostnaðar við prentun vottorðsmiða þar sem niðurstöður mats kvikmyndaskoðunarnefndar koma fram og fylgir hverju eintaki myndbands.
    Miðað er við að gjöld þessi renni í ríkissjóð og að þau verði aldrei hærri en sem nemur kostnaði við starfsemi kvikmyndaskoðunarnefndar.
    Varðandi efni 5. gr. þykir ekki ástæða til að hverfa frá þeirri tilhögun að sjónvarpsstöðvar annist sjálfar skoðun kvikmynda, sem þær hyggjast sýna í dagskrá sinni, enda séu höfð um það samráð við kvikmyndaskoðunarnefnd. Telja má þennan hátt eðlilegan með hliðsjón af þeirri ábyrgð á dagskrárefni sem sjónvarpsstöðvunum er lögð á herðar samkvæmt útvarpslögum, auk þess sem hagkvæmnisástæður mæla með honum. Ákvæði sama efnis og hér er gert ráð fyrir að lögfesta eru nú í reglugerð.
    Í 6. gr. er fortakslaust kveðið á um að hvers kyns dreifing kvikmynda sé óheimil nema að undangenginni skoðun hjá kvikmyndaskoðunarnefnd og að niðurstöður nefndarinnar liggi fyrir. Áður er vikið að undantekningu að því er varðar sjónvarpsdagskrár.
    Í 7. gr. eru tekin af tvímæli um skyldu framleiðenda kvikmynda, innflytjenda og dreifingaraðila til þess að sjá um að öll eintök kvikmynda er þeir hafa undir höndum séu rétt merkt að því er varðar mat kvikmyndaskoðunarnefndar. Jafnframt er áskilið að þessir aðilar skuli láta niðurstöður kvikmyndaskoðunarnefndar fylgja auglýsingum og kynningu á kvikmyndunum.
    Kvikmyndaskoðunarnefnd á að gefa út a.m.k. tvisvar á ári heildaryfirlit yfir skoðaðar kvikmyndir. Tilgangur með slíkri útgáfu er fyrst og fremst að gera mat skoðunarmanna á sýningarhæfi aðgengilegt almenningi. Rétt er að senda slík yfirlit til fjölmiðla, barnaverndaryfirvalda, lögreglustjóra og annarra hlutaðeigandi aðila. Æskilegt er einnig að gera sérstakt yfirlit yfir þær kvikmyndir sem bannaðar hafa verið.
    Í 8. gr. er gert ráð fyrir ótvíræðum reglum um aðgang barna og ungmenna að kvikmyndum í kvikmyndahúsi og afhendingu kvikmynda á myndböndum til barna ef kvikmyndin er bönnuð börnum á þeirra aldri. Því miður virðist nokkur misbrestur á því að þess sé gætt og á það einkum við um myndbandaleigur. Því er í frv. þessu gerð tillaga um skýr ákvæði er lúta að ábyrgð þess sem rekur myndbandaleigu á að framfylgja niðurstöðum kvikmyndaskoðunarnefndar í starfsemi sinni.
    9. gr. er efnislega sambærileg við ákvæði fyrri laga um vernd barna og ungmenna og laga um bann

við ofbeldiskvikmyndum. Þó er gert ráð fyrir því að eftirlit löggæslu og barnaverndarnefnda verði skipulegra en tíðkast hefur.
    Þá er rétt að vekja athygli á því að með frv. þessu er gert ráð fyrir samvinnu kvikmyndaskoðunarnefndar og tollyfirvalda í þeim tilgangi að stemma stigu við innflutningi ofbeldiskvikmynda.
    10. gr. þarfnast ekki skýringa að öðru leyti en því að refsiramminn er lækkaður frá því sem nú er og höfð hliðsjón m.a. af 210. gr. almennra hegningarlaga, nr. 19/1940. Þá þótti nauðsynlegt að viðhalda heimild til eignaupptöku á ólöglegum kvikmyndum, sbr. 4. gr. laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Áður hef ég vikið að efni 11. gr. varðandi tölvuleiki þar sem ráðherra er heimilað að setja sérstakar reglur um skoðun svokallaðra tölvuleikja og laga nr. 33/1983, um bann við ofbeldiskvikmyndum.
    Hæstv. forseti. Ég hef gert í stuttu máli grein fyrir efni frv. til laga um skoðun kvikmynda og um bann við ofbeldiskvikmyndum og þeim meginforsendum sem að baki frv. liggja. Ég árétta að með frv. þessu er leitast við að breyta í sem minnstu núverandi tilhögun á banni við ofbeldiskvikmyndum og skoðun kvikmynda. Reynslan af starfi Kvikmyndaeftirlits hefur verið góð og nauðsynlegt er að treysta lagagrundvöll þeirrar starfsemi, einkum í ljósi þess mikla ofbeldis sem nú færist í vöxt í kvikmyndum.
    Ég leyfi mér, hæstv. forseti, að leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. menntmn. að lokinni þessari umræðu.