Skoðun kvikmynda

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 12:24:36 (1930)


[12:24]
     Jóhann Ársælsson :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hljóðs vegna þess að mig langar til þess áður en hæstv. ráðherra tekur til máls að skerpa kannski örlítið spurningar um það sem ýmsir hv. þm. hafa komið að hér, þ.e. dreifing á ofbeldisefni með öðrum hætti en í atvinnuskyni. Mér finnst þetta frv. eiginlega snúast um það hvernig ofbeldisefni er dreift í atvinnuskyni. En það mætti, finnst mér, með góðum vilja þeirra sem dreifa ofbeldi af öðrum ástæðum lesa þetta frv. þannig að það væri leyfilegt og þá er ég ekki bara að tala um tölvuleiki og annað því um líkt eða möguleika á því að komast inn í tölvubanka heldur líka móttaka efnis úr gervihnöttum og við skulum bara segja klúbbastarfsemi í kringum þannig móttöku eða einhver önnur starfsemi sem er auðvitað þekkt hér og menn hafa þurft að glíma við áður þegar menn hafa viljað fara á bak við reglur og lög. Mér finnst að hæstv. ráðherra ætti að fara fáeinum orðum um það hvernig hann sér fyrir sér eftirlit með slíkri starfsemi sem er meira en hugsanleg því við vitum auðvitað að hliðstæð starfsemi hefur stundum komið upp í þjóðfélaginu.
    Annars vil ég þar fyrir utan taka jákvætt undir það sem hér er verið að gera. Ég held að þrátt fyrir að það sé kannski ekki hægt að trúa því að okkur takist að koma alfarið í veg fyrir dreifingu á ofbeldiskvikmyndum þá sé a.m.k. óverjandi annað en að reyna að hafa uppi einhverja tilburði til þess að draga úr þeim. Þess vegna held ég að það sem hæstv. ráðherra er hér að gera og ríkisstjórnin með því að leggja þetta frv. fram sé jákvætt og ég vil taka undir það en ég geri ráð fyrir því að í hv. nefnd verði kannski til einhverjar tillögur til þess að skerpa á því sem hér hefur verið talað um. En fyrst og fremst kom ég hér í ræðustól til að biðja hæstv. ráðherra að gera okkur grein fyrir því, því það hlýtur að hafa komið til umræðu við undirbúning þessa máls, hvernig menn sjá fyrir sér eftirlit og það hvernig megi koma í veg fyrir að það sé einhvers konar aðgangur að þessu sem ég var að tala um áðan, bæði í gegnum tölvukerfi og

gervihnetti. Kannski verður spurningin skýrari ef ég spyr: Hvers vegna er ekki í þessum lagatexta lagt blátt bann við að sýna eða taka á móti slíku efni þannig að ef einhver kærir slíkt þá hafi hann a.m.k. skýran lagatexta til að vitna í?