Skýrslur háskólans um EES og ESB

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 13:55:51 (1942)


[13:55]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ég varaði við því í vor að þessi beiðni um skýrslur frá Háskóla Íslands ætti eftir að skapa mikið klúður og verða til vandræða í þessu máli. Það er nú að koma á daginn. Til viðbótar hafa svo ráðherrar og forusta Alþfl. hagað sér þannig í þessu máli að það er orðið alveg ónýtt sem einhver grundvöllur umræðu í landinu. Það er ekki aðeins að hæstv. utanrrh., formaður Alþfl., hafi látið sinn flokk halda fund þar sem skýrslurnar eru notaðar í þágu Alþfl. á sama tíma og það gildir trúnaðarkvöð á skýrslunum í utanrmn. heldur flutti hæstv. viðskrh. í stefnuumræðunni í upphafi þings túlkun sína á niðurstöðum þessarar skýrslna. Túlkunin var skýr í þeirri ræðu og hann var sá helsti af ráðherrum Alþfl. sem talaði í þessum umræðum, að skýrslurnar styddu skoðun Alþfl.
    Nú hefur það hins vegar verið upplýst hér til viðbótar, sem ég held að enginn hafi haft hugmyndaflug til þess að láta sér detta í hug, að skýrslurnar voru ekki unnar á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar heldur fóru fulltrúar utanrrh. í sérstakar einkaviðræður við þá starfsmenn uppi í háskóla sem áttu að vinna verkið um hvað ætti að skrifa. Hæstv. utanrrh. viðurkennir það hér að skýrslurnar voru ekki unnar á grundvelli samþykktar ríkisstjórnarinnar heldur voru tekin fyrir þau efnisatriði sem utanrrn. sérpantaði að fjallað yrði um.
    Það er óhjákvæmilegt, hæstv. sjútvrh. og hæstv. forsrh., að það komi alveg skýrt fram hér í ræðustól á Alþingi hvort hæstv. forsrh. og hæstv. sjútvrh. vissu um þennan millileik utanrrh. og fulltrúa hans þegar gengið var frá endanlegri samningagerð við háskólann um efni skýrslanna.