Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 14:41:17 (1959)


[14:41]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Svo oft höfum við rætt þessi lyfjamál í þingsölum að ég ætla að spara mér langa ræðu nú því ég mun samþykkja þetta frv. til laga fyrirvaralaust.
    Ég hlýt að fagna því að þetta frv. sé til umræðu og loksins komið í þann farveg að líkur eru á að það fái hraða afgreiðslu í gegnum þingið og bændur fái aftur þá þjónustu dýralækna sem þeir áður höfðu. Þeir hafa nú þegar haft mikinn aukakostnað vegna nýju lyfjalaganna og ég vona að með samþykki þessa frv. sé það úr sögunni.
    Nýsamþykkt lyfjalög hafa komið illa við bændur sökum þess að með þeim er með strangri túlkun ekki heimilt fyrir dýralækna að selja nema bráðalyf. Sem sagt bændum er gert að sækja dýralyf í lyfjaverslun sem getur verið í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Menn hafa rætt mikið um samkeppni og samkeppnisráð og þetta brjóti í bága við þau. En það er einu sinni þannig að þó prinsippin séu góð þá geta aðstæður verið þannig að það sé bara ekki hægt að framfylgja þeim enda kemur það greinilega fram í bréfi frá Samkeppnisstofnun að þeir taka ekki tillit til þessa byggðaþáttar og gera því ekki mjög miklar athugasemdir við þetta vegna þess að þó að eðlilegt sé að sami aðili skrifi ekki lyfseðil og afgreiði síðan lyfið

þá er það bara þannig að það er ekkert hægt að komast hjá því nema við séum tilbúin til þess að láta bændur bera svo og svo mikinn kostnað af því að ná til lyfsins. Þetta er nú ekkert flóknara en þetta. Raunveruleikinn er stundum pínulítið öðruvísi en prinsippin.
    Ég þarf ekkert að rekja það hvað þessar breytingar hafa valdið miklum skaða hjá bændum og hvað þeir hafa þurft að hafa mikinn aukakostnað vegna þeirra. Ég þarf heldur ekkert að rekja það hér í þessum sal, svo oft hef ég gert það, við bentum á það þegar verið var að samþykkja þessi nýju lyfjalög að þau væru meingölluð. Það kom strax í ljós í vor þegar hluti þeirra tók gildi að það þurfti strax bráðabirgðalög vegna þess að það voru tæknileg atriði sem ekki voru í lagi. Þá bað ég strax um fund í hv. heilbr.- og trn. sem ég fékk og bað þá um að sett yrði í þau bráðabirgðalög einmitt þessi breyting sem nú loksins er komin hér fram. Þá var ekki vilji fyrir því í nefndinni, því miður, því þá hefðum við getað sparað okkur þennan þátt sem hér fer fram heldur urðum við í staðinn nokkrir þingmenn Framsfl. að leggja fram frv. strax í upphafi þings sem er sama eðlis og hér er verið að fjalla um.
    Það hefði sem sagt verið hægt að komast hjá þessu klúðri en einu klúðri fylgir alltaf annað klúður eins og fram kom í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur og við eigum sem sé von á því að þau verði fleiri, því er verr og miður.
    Það kom fram í ræðu hv. 13. þm. Reykv., Láru Margrétar Ragnarsdóttur, sem talaði áðan mjög skýrt og sagði að hún hefði viljað að þessi mál hefðu verið tekin til meiri skoðunar en gert var og að þessi mál hefðu öll verið grandskoðuð og mikið var ég sammála þingmanninum og mikið vildi ég að þingmaðurinn hefði haldið þessa ræðu í vor því það var ástæða til að halda hana þá. Það hefði líka verið ástæða fyrir hana og fleiri sem hér tala nú um að það hefði verið rétt að skoða þessi mál betur að samþykkja þá tillögu sem stjórnarandstæðingar voru með í vor um að vísa öllu frv. til hæstv. ríkisstjórnar til frekari skoðunar og málið yrði svo í heild sinni borið upp í vor. En menn báru ekki gæfu til þess, því miður, og ég ætla ekki að rifja það meira upp. Þannig er nú þetta.
    En sem sagt, það er búið að taka tillit til þessa atriðis sem snýr að bændum og ég fagna því. Nú brosir hv. formaður heilbr.- og trn., hann gerir það nú ekki ýkjaoft í þingsalnum. Það er kannski vegna þess að við erum loks orðin sammála.
    Það hefur ýmislegt verið tínt til í þessari umræðu sem væri kannski ástæða til að fjalla nánar um, t.d. að það er ekki samræmi í þessu frv., sem vonandi verður að lögum hið allra fyrsta, varðandi lausasölulyf manna og dýra, þar sem frjáls álagning verður á lausasölulyfjum en aftur á móti verður álagning dýralyfja háð takmörkunum, þ.e. það verður sett hámarksverð á dýralyf í lausasölu líka. Það er náttúrlega ekkert óeðlilegt ef maður skoðar málið vegna þess að það er kannski ekki mjög mikil samkeppni í þessari sölu og hætta á einokun þar sem langt er í lyfjaverslun þannig að það er ekkert óeðlilegt að þarna skarist á milli manna- og dýralyfja.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta mál. Mér sýnist þetta vera komið í allsæmilegan farveg og hlýt að fagna því.