Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 14:47:54 (1960)


[14:47]
     Finnur Ingólfsson :
    Virðulegur forseti. Ég ætla við þessa umræðu svo sem ekki mikið að halda mig við fortíðina því þetta frv. sem hér var samþykkt og nú er orðið að lögum um lyf var í sjálfu sér eitt stórslys þegar frá því var gengið. En eitt af því sem mikilvægast er þegar menn ganga frá lögum frá Alþingi er það að lagasetningin sé alveg skýr. Það þurfi enginn að velkjast í vafa um það til hvers lögin eigi að ná. Allra síst má það gerast að þeir sem þurfa að vinna eftir lögunum séu í einhverjum vafa. Það sem gerðist því miður við þessa lagasetningu var það að þeir sem áttu að búa við lögin, þ.e. bændur, og þeir sem áttu að vinna eftir lögunum, þ.e. dýralæknar, gátu alls ekki búið við lögin eins og þau stóðu. Nú er því haldið fram af embættismönnum að það hafi í sjálfu sér verið einfalt og auðvelt. En staðreyndin er hins vegar sú að þeir sem við þurftu að búa og vinna áttu eftir þessu þeir treystu sér ekki til þess. Þá er auðvitað ekkert að gera fyrir löggjafann annað en að breyta lögum og hafa þau eins kristaltær og nokkur kostur er.
    Þetta mál kom fyrst inn í heilbr.- og trn. eftir að hv. 2. þm. Vesturl., Ingibjörg Pálmadóttir, hafði mælt fyrir breytingu á gildandi lyfjalögum. Það var kveikjan að því að umræðan fór af stað um breytingar. Síðan í rás tímanns og vinnu í nefndinni er niðurstaðan sú sem hér liggur fyrir. Tilgangurinn á að vera sá að tryggja bændum aðgengi að lyfjum. En tilgangurinn er ekki sá eins og kom hér fram hjá hv. þm. Margréti Frímannsdóttur að það væri hætta á að það gerðist hugsanlega að tryggja bændum ákveðin kjör. Það er ekki tilgangurinn. Hins vegar er með þessu frv. komið í veg fyrir það að dýralæknar, ef þeir það kysu, gætu hreint og beint arðrænt bændur. Það er komið í veg fyrir það með frv. eins og það liggur hér fyrir og mælt hefur verið fyrir af formanni hv. heilbr.- og trn.
    Megintilgangur laganna eins og þau stóðu eftir að Alþingi samþykkti þau var það að auka frelsi, lækka verð og ná því fram með ákveðinni samkeppni. Staðreyndin er hins vegar bara sú og það sagði stjórnarandstaðan hér í hverri einustu ræðu sem haldin var um þetta mál þegar Alþingi var að ganga frá því að ekkert af þessum markmiðum mun nást. Samkeppni á markaði er ekki til staðar. Frelsið er jú aukið en frelsið mun leiða til hærra lyfjaverðs eins og lá fyrir að hefði gerst í lausasölulyfjunum hjá dýralæknunum. Frelsið mun leiða til aukinna útgjalda fyrir fólkið sem þarf að kaupa lyfin og frelsið mun leiða til þess að lyfjakostnaður ríkisins mun hækka. Þannig að markmiðið um lækkaðan lyfjakostnað er bara víðs fjarri og aldrei eins fjarri og eftir að þessi lög tóku gildi.
    Dýralæknar voru með þeim lögum settir í þá ótrúlega erfiðu stöðu að vera í einokunaraðstöðu á markaðnum. Eiga sjálfir frá 1. nóv. 1995 að ákveða verðið til bænda á lausasölulyfjum. Það er ekki hægt og það er brot á öllum samkeppnisreglum að setja einhvern aðila sem hefur algera einokunaraðstöðu í þá stöðu að ákveða verðið á þeirri vöru sem hann er að selja. Það var andi núgildandi laga um lyfsölu og lyfjadreifingu. Það má ekki gerast. En þetta frv. kemur í veg fyrir að slíkt sé gert. Og að halda því síðan fram að menn séu að bera hér fram frv. til að tryggja tekjuhagsmuni dýralækna er alveg út í loftið vegna þess að það er verið að koma í veg fyrir að það myndist hugsanlegur trúnaðarbrestur milli lækna og bænda með þessu frv. Og að halda að hægt sé að ná því fram að segja að í hverju einasta heilsugæsluumdæmi þar sem ekki er starfandi lyfjabúð þar megi dýralæknar versla með lyf.
    Förum nú aðeins yfir landið og skoðum og reynum að finna heilsugæsluumdæmi þar sem ekki er starfandi lyfjabúð, það er ekki til. Hefðum við farið að samþykkja einhverja slíka hluti hér við þessa umræðu og hefði það orðið niðurstaðan af starfi heilbr.- og trn. þá hefði hún orðið einmitt sú að fyrirkomulagið er algerlega óbreytt, bændur eru í sama vanda eftir sem áður. Og dýralæknarnir væru í enn þá meiri vanda þegar þeir hefðu lent í því að fara að ákveða undir einokunarkringumstæðum verðið til bænda sjálfir.
    Ég get hins vegar tekið undir þá meginhugsun sem á að vera í lyfjalögum og í samskiptum lækna og einnig dýralækna að ávísunarvenjurnar mótist af fjárhagslegum hagsmunum læknanna. Það er auðvitað gott og göfugt markmið. Telji nú Samkeppnisstofnun sig þurfa að rannsaka einhverja hluti á þessu sviði þá held ég að fyrsta verkið væri einmitt það að skoða hvernig þessum samskiptum er nú háttað milli lyfsala í landinu og lækna. Ekki vegna þess að læknarnir reki lyfjaverslanirnar heldur kannski vegna þess hvar lyfjaverslanirnar eru staðsettar og hverjir það eru sem kunna að eiga þær eignir sem lyfjaverslanirnar eru staðsettar í og hvort ekki geti hugsanlega verið um einhverja hagsmunaárekstra þar að ræða milli þeirra sem þar um tefla. Þannig er því miður öll lagasetningin um lyfsöluna og lyfjadreifinguna í landinu á misskilningi byggð. Það er ekki hægt og fyrir þá sem halda því fram að það sé hægt að koma upp samkeppni á þessum markaði, það er blekking. Það er bara einfaldlega blekking vegna þess að það eru engar markaðsaðstæður til staðar til þess að þetta geti gengið fram með þessum hætti. Ég geng þess vegna alveg óhræddur til þess leiks að leggja þetta frv. fram og styðja það án nokkurs fyrirvara vegna þess og það er nú stóri misskilningurinn, því miður, í allri þessari umræðu og ég held að menn verði að lesa greinargerðina með þessu frv. þegar menn halda því fram að þetta brjóti samkeppnislög, að frv. brjóti samkeppnislög. Það stendur hér, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Fram kom í áliti Samkeppnisstofnunar að lyfsala dýralækna sýndist ekki samrýmast þeirri hugsun sem væri að baki síðari mgr. 21. gr. lyfjalaganna.``
    Þetta er auðvitað allt annað en það brjóti samkeppnislögin. Hættan er sú að ef þessi breyting verði gerð, þá samrýmist ekki sú hugsun lyfjalögunum en ekki að það brjóti samkeppnislögin og það er auðvitað gríðarlegur munur þar á. En til þess að taka af öll tvímæli í þessu efni þá er einnig gerð sú breyting í þessu frv. að það eigi að gilda 5. mgr. 30. gr. gildandi lyfjalaga um lyfsölu dýralækna svo að það þarf enginn að velkjast í vafa um að það er ekki á nokkurn hátt verið að brjóta samkeppnislög. Það er heldur ekki verið að ganga gegn þeim samkeppnisanda sem er í þeim lögum sem nú eru í gildi sem er í raun og veru settur fram á fölskum forsendum og er ekkert annað heldur en fögur orð á blaði og ég hef rakið hér áður. Markaðurinn er ekki til staðar. Samkeppninni er hvergi hægt að koma við. Einokunaraðstaðan er alls staðar til staðar og það á ekki að setja þá sem hafa einokunaraðstöðuna í þá stöðu að geta látið þá ráða verðinu sjálfa. Og það er umhugsunarvert fyrir þingmenn Sjálfstfl. sem greiddu atkvæði með þessu frv. þegar það varð hér að lögum á þingi, og mátti nú ekki miklu muna að það færi ekki í gegn, að þeir skuli hafa greitt atkvæði með því að setja dýralækna í þá stöðu að vera með einokunaraðstöðu á lyfjasölunni og ætla að láta bændur borga fyrir.