Lyfjalög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 15:03:00 (1963)


[15:03]
     Páll Pétursson :
    Herra forseti. Bara örfá orð. Ég vil þakka hv. heilbr.- og trn. fyrir þetta frv. Eins og fram kom hjá hv. síðasta ræðumanni var setning lyfjalaganna slys í fyrra. Það er nú verið að vinna að því að endurbæta þau. Það þurfti að setja bráðabirgðalög til þess að bæta úr ágalla á þessum lagabálki og hér er verið að lagfæra annað atriði í framhaldi af frumvarpsflutningi þingmanna Framsfl.
    Í lögunum eins og þau eru í dag eru algerlega óviðunandi ákvæði um dýralyf. Það er gersamlega óbúandi við þá túlkun sem sumir dýralæknar --- ég tek fram sumir því það eru ekki allir undir sömu sök seldir, að túlka lögin á þann hátt sem nokkrir dýralæknar gerðu, það er algerlega óbúandi við það. Það skapar veruleg óþægindi og geysilegan aukakostnað fyrir búreksturinn. Dýralyf og dýralækniskostnaður er veruleg upphæð á flestum búum þar sem kvikfjárrækt er stunduð. Bændum var ekki einungis gert að greiða lyfin háu verði heldur líka endalausan aksturskostnað. Það er töluvert mál frá ýmsum sveitabæjum á Íslandi að komast í apótek. Dýralyf getur líka þurft að nota fyrirvaralítið, jafnvel að næturlagi og um helgar.
    Hér hefur orðið nokkur umræða um að e.t.v. sneiði ákvæði þessa frv. að samkeppnislögum. Ég held að það sé alls engin hætta, mér finnst það ákaflega langsótt að ímynda sér það að samkeppnislög kynnu að vera brotin með þessum lögum. Hér er meiningin að lyfin verði háð verðlagseftirliti og ég hvet sérstaklega samtök bænda til þess að auglýsa leyfilegt hámarksverð á lyfjum á hverjum tíma og hvet bændur til þess að kynna sér þær auglýsingar. Þá er ekki nokkur hætta á því að misfarið verði með þetta atriði.
    Það er tekið fram í lögunum að reglugerð þurfi að setja með þeim og ég vil biðja menn að vanda sig við þá reglugerðarsetningu. Það ber að afgreiða þetta mál mjög skjótlega. Það bætir úr brýnni þörf. Bændur og dýralæknar höfðu góða reynslu af fyrra skipulagi og það er sjálfsagt að taka það upp.