Hjúskaparlög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 16:21:28 (1977)


[16:21]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Ég held að hv. síðasti ræðumaður þurfi ekkert að furða sig á því að hann, karlmaður, skuli vera að reyna að bæta úr ranglæti í lífeyrismálum sem ég get vissulega tekið undir með honum að er fyrir hendi á meðan ekki hafa allir þann lífeyrisrétt sem þeir ættu að hafa, þannig að mér finnst það bara sjálfsagt og ekki nema gott eitt um það að segja. Hitt er annað mál að ég held að sú leið sem hér er valin, sé spor í rétta átt, en að með einni ákveðinni breytingu yrði þetta framkvæmanlegt með þeim hætti að fullnægjandi sé að mínu mati. Ég sit í hv. allshn. og þar voru hjúskaparlög til umfjöllunar og mjög mikillar umfjöllunar og m.a. ákvæði sem hann vísar þarna til um það hvaða réttindi falli utan skipta. Ég er alveg sammála hv. þm. að þótt það hafi ekki náð fram að ganga þá er óeðlilegt að þessi réttindi falli utan skipta. En það sem okkur hv. þm. greinir væntanlega á um er síðan það hvort það eigi að taka réttindin sjálf og skipta þeim og koma þeim fyrir þannig að hvort hjóna fyrir sig hafi sinn sjálfstæða rétt út frá þeim lífeyrisréttindum sem hann tilgreinir þarna og eftir þeim reglum sem þarna eru eða hvort þetta sé eign sem er lögð inn í þau sameiginlegu skipti sem verða og síðan verði þá að bæta það upp. Þessi réttur er persónubundinn en það verði að bæta það upp með öðru. Þetta tel ég að eigi að vera við skipti hjá öllum hjónum hvort sem bæði greiða í lífeyrissjóð eða annað, að þetta sé bara hluti af því sem komi til skipta og þar í rauninni erum við að uppfylla sömu hugsun þó með öðrum hætti sé. Hins vegar er ég alveg sammála því og það var alveg hárrétt hjá hv. þm. greint frá því að við kvennalistakonur höfum lagt mikla áherslu á að allt fólk, bæði heimavinnandi og útivinnandi hafði möguleika á því að ávinna sér sjálfstæð lífeyrisréttindi og það er auðvitað það sem koma skal. Sem betur fer er ég meiri bjartsýnismanneskja en hv. þm. Ég held að ef það mundi skapast viðurkenning og vilji til þess að bæta úr þessu sjálfsagða réttlætismáli þá væri það framkvæmanlegt.
    Svo sem þingmanninum er kunnugt þá höfum við kvennalistakonur komið með eina leið af mörgum sem mögulegar væru til að ná þessu marki og lagt fram frv. um lífeyrisréttindi heimavinnandi þar sem er gert ráð fyrir því að litið sé svo á að heimavinnandi fólk leggi það til samfélagsins að ríki og sveitarfélög eigi að standa undir greiðslum til lífeyrisréttinda. Þetta er engan veginn eina leiðin sem hægt er að fara. Það má líka hugsa sér að hjón sem ákveða sjálf sína verkaskiptingu sjái til þess að bæði hjóna öðlist fullan lífeyrisrétt á sama tíma og það þarf að koma því þannig fyrir að það sé greitt í lífeyrissjóð fyrir báða aðila hvort sem það er annað hjóna eða þau bæði sem sjá um tekjuöflunina. Þannig skapast fullur réttur hjá báðum hjónum. Þetta er annar möguleiki sem hægt er að velta fyrir sér og það eru án efa fleiri möguleikar. Þetta eru einfaldlega hlutir sem ég ætla að varpa hér fram í umræðunni vegna þess að ég tel að hér sé um grundvallarmannréttindi að ræða. Því miður hefur okkur miðað býsna hægt í því að tryggja fólki almenn mannréttindi. Það er ótrúlega stutt síðan við viðurkenndum að fleiri ættu rétt til atvinnuleysisbóta en einungis fólk sem tilheyrði vissum stéttarfélögum. Þessi almennu mannréttindi hafa nú verið viðurkennd og það er smátt og smátt verið að laga löggjöfina á þessu.
    Eins tel ég að jafnsjálfsögð mannréttindi og lífeyrisréttindi eigi að vera tryggð hverjum einasta einstaklingi í samfélaginu. Þangað til það gerist held ég að hægt sé að mæta þessu, t.d. við hjúskaparslit, með þeim hætti sem ég benti hér á og þetta var vissulega rætt sem möguleiki þegar hv. allshn. var að taka á þessum málum. Það var einfaldlega það að það skyldi viðurkennt að þetta væri hluti hjúskapareignar og eignaskipti yrði þá með þeim hætti að þó að sá sem ætti lífeyrisréttinn héldi honum, þá fengi hitt hjónanna það bætt upp með öðrum hætti. Þetta er möguleiki sem ég vil benda hv. þm. á vegna þess að ég tel að við séum að mörgu leyti skoðanasystkini í þessum málum. Við erum að tala um sömu hlutina. Okkur greinir á um leiðirnar og það er ekki að ástæðulausu að við höfum valið hvort sína leiðina í okkar málflutningi. Það er ekkert athugavert við það að skoðanir séu skiptar um það. Það sem skiptir hins vegar máli er að framkvæmdin strandi ekki endalaust á því að fólk geti ekki komið sér saman um hvaða leið skuli fara. Við kvennalistakonur teljum okkur einfaldlega hafa enn betri leið upp á að bjóða og við höfum kynnt hana hvað eftir annað og ég vil þess vegna vona það að innan allshn. verði þetta mál rætt með opnum hug og með þessa möguleika fyrir hendi. Þar hef ég möguleika sem betur fer til að koma að þessu máli og ég

held að í kjölfar þeirrar umræðu sem þó varð þegar hjúskaparlögin voru sett þá sé búið að vinna ákveðna forvinnu í þessu máli þó að við höfum ekki komist lengra því miður með þetta mál á sínum tíma. Ég held að þessi leið að tengja þetta mál hjúskaparlögunum sé mjög glúrin og ég held að þarna sé í rauninni hægt að taka á málunum. Þar af leiðandi eygi ég von um að það komist botn í þetta mál, en með þessum athugasemdum sem ég færði hér fram.