Hjúskaparlög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 16:29:10 (1978)


[16:29]
     María E. Ingvadóttir :
    Virðulegi forseti. Hér er um að ræða mál sem flokka mætti undir sjálfsagða leiðréttingu á lögum. Við þekkjum allt of mörg dæmi um það að fullorðnar konur standa uppi án nokkurra lífeyrisréttinda eftir skilnað ef viðkomandi hefur verið heimavinnandi og hérna er einmitt um að ræða líka mikilvægan þátt í því að viðurkenna heimavinnandi sem fyrirvinnu heimilis og það er þá metið til jafns hvort vinnuframlagið er utan heimilis eða á heimilinu sjálfu.
    Ég er að mörgu leyti sammála hv. seinasta ræðumanni og ég vona svo sannarlega að næsta skref gæti orðið það að öll áunnin lífeyrisréttindi mundu skiptast á milli hjóna því það væri þá líka liður í því að auðvelda konum það val að geta verið heima með börnum sínum. En ég vona að þetta frv. fái sanngjarna meðferð í þinginu.