Hjúskaparlög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 16:30:38 (1979)


[16:30]
     Guðný Guðbjörnsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég tek til máls út af frv. til laga um breytingu á hjúskaparlögum þar sem verið er að hreyfa mjög mikilvægu máli að ég tel sem snertir lífeyrisréttindi heimavinnandi húsmæðra. Ég er þeirrar skoðunar að þau mál séu í miklum ólestri og þurfi vissulega úrlausnar við. Vandinn er hins vegar að það er ekki ljóst hver á að greiða þeirra lífeyrisréttindi og ég tel að þetta frv. taki ekki á málinu með viðunandi hætti en ef með 1. gr. frv. er átt við að ellilífeyrisréttindin séu metin til eigna eins og aðrar eignir við skilnað þá get ég samþykkt það. Það er ekki alveg skýrt hvort verið er að tala um að flytja réttindin á milli því að nú eru hjónaskilnaðir mjög tíðir og fólk getur gift sig oft á lífsleiðinni þannig að ég held að það yrði mjög flókið mál að fara að flytja réttindi á milli fólks. En ef með þessu er átt við, það er ekki alveg skýrt í frumvarpsgreininni sjálfri, að þessi réttindi séu metin til eigna við skilnað þá get ég vel samþykkt það þannig að sá makinn sem hefur minni lífeyrisréttindi við skilnað fái þá bara hlutfallslega meira af eignum til skiptanna. Ég er sem sagt á því að áunnin réttindi hljóti að miðast við þá einstaklinga sem til þeirra vinna miðað við núverandi velferðarkerfi. Annað er ekki réttlátt og við verðum því að finna aðrar lausnir á því að leysa ellilífeyrismál heimavinnandi húsmæðra.