Hjúskaparlög

42. fundur
Fimmtudaginn 24. nóvember 1994, kl. 16:33:01 (1980)


[16:33]
     Flm. (Guðmundur Hallvarðsson) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls fyrir þessa ágætu umræðu um breytingu á hjúskaparlögum. Ég gat þess áðan sérstaklega að minn ágæti vinur og félagi, Guðmundur H. Garðarsson, hefði flutt þessi mál hér á einum fjórum þingum, en mér láðist að geta þess að þá var enn fremur meðflm. hans að þessu frv. um lífeyrisréttindi hjóna virðulegur forseti, Salome Þorkelsdóttir, og auðvitað á það að vera sem sannast er og réttast þegar talað er hér úr þessum ræðustóli.
    Ég skil það vel að hv. þm. Anna Ólafsdóttir Björnsson hafi talað um það að hún væri bjartsýnni en ég þegar hún gat þess að ég sæi ekki í nánustu framtíð það gerast að heimavinnandi húsmóðir mundi vinna sér inn lífeyrisrétt sérstaklega til viðbótar við það sem útivinnandi maki mundi afla sér til lífeyrisréttinda vegna þess að það dæmi er svo stórt og það eru svo mörg vandamál í þjóðfélaginu sem við erum að glíma við og má þá nefna t.d. heilbrigðisgeirann allan og velferðarmálin. Auðvitað er þetta velferðarmál. Ég get heils hugar tekið undir það með þeim sem hér töluðu áðan að það var auðvitað hin æskilegasta leið. En ég held að þá þurfi virkilegrar uppstokkunar við í öllu lífeyrissjóðakerfinu. Þá þarf slíka uppstokkun við að það verði hætt að miða við einhverjar ákveðnar tekjuhliðar, það verði heldur stefnt að því að allir borgi inn í ekki kannski einn lífeyrissjóð heldur ákveðinn hlut til ríkisins og síðan séu réttindi þaðan greidd þannig að lífeyrissjóðakerfið í þeirri mynd sem það er nú verði lagt niður, en tekið upp nánast eins og það sem gerist t.d. í Þýskalandi. En það er ákaflega flókið mál, en þó merkilegt og allrar athyglinnar vert.
    Það er nú svo eins og við þekkjum til að á mörgum stöðum í lífeyrissjóðakerfinu er, mér liggur við að segja allt að því rugl á ferðinni þegar menn jafnvel fá út úr lífeyrissjóðakerfinu hafandi setið í ýmsum æðstu embættum þessa þjóðfélags, þá hafi menn þegar þeir eru komnir á eftirlaun hærri laun en þeir

höfðu þegar þeir voru í starfi. Það er visslega á mörgu að taka í þessu lífeyrissjóðakerfi í heild sinni en það hefur verið reynt að breyta kerfinu þannig að það væri nánast innstreymi eða útstreymi. Það væri einn lífeyrissjóður fyrir alla landsmenn en því miður hefur það ekki komist á enn. Það eru margar bjartar hliðar á því alveg eins og það má líka finna víða gadda og horn í þeim tillögum sem lagðar hafa verið fram.
    En varðandi það sem síðasti ræðumaður, 10. þm. Reykv., talaði um, hvað sé átt við með áunnu réttindin. Eins og kemur fram í greinargerðinni þá er talað um að þau réttindi miðast við þann og ég hef hugsað það þannig að við fjárslit hjóna komi auðvitað greiðslur til fyrrv. eiginkonu með þeim hætti að hún fái greiðslur út úr lífeyrissjóðnum við þau aldursmörk sem reglugerðir sjóðanna kveða á um. Ég get því ekki séð hvernig væri hægt að fara fram hjá þeirri ætlan sem kemur fram hér í frv. þó svo kannski ef menn skoða texta þeirra laga sem sett eru hér frá sitt hvoru sjónarhorninu. Það er eins og ég gat um áðan ákaflega erfitt að setja fram afgerandi lagatexta sem t.d. innihéldi einhverjar flýtireglur. Ég tel að það sé ekki hægt að koma því við eins og t.d. hjá Lífeyrissjóði opinberra starfsmanna, að flýtiregla til töku lífeyris vegna aldurs plús starfsaldurs, sú regla geti ekki gilt varðandi eiginkonuna eða eiginmanninn eftir því hver á í hlut. Það hlýtur að verða hin almenna regla varðandi rétt til töku ellilífeyris úr viðkomandi sjóðum og hlýtur að verða að fylgja þeirri meginreglu sem annaðhvort er í lögum um viðkomandi sjóði eða reglugerðum.
    En ég endurtek þakkir fyir þær undirtektir sem þetta mál hefur hér fengið. Ég er enn þá sama sinnis og áðan og þar greinir okkur aðeins á um markmið og leiðir þó að við séum sammála um það, ég og hv. 9. þm. Reykn., Anna Ólafsdóttir Björnsson, að þetta er hið besta mál og sanngirnismál. Og hafandi setið á þingi þetta kjörtímabil og séð hversu oft þetta mál hefur verið flutt á þingi, líka fullviss um réttlætið í þessu, þá undrar mig mjög hversu seint og illa hefur gengið að afgreiða þetta mál frá hinu háa Alþingi. Það kemur kannski til af því eins og ég gat um áðan í ræðu minni að lífeyrissjóðirnir höfðu allt á hornum sér við að setja þetta á og skrá hin eiginlegu réttindi sem áunnin voru á meðan tiltekin hjón voru gift. En auðvitað með allri þeirri tækni sem nú er orðin varðandi skráningu á innvinnslu lífeyrisréttinda þá tel ég að það sé ekkert stórmál fyrir lífeyrissjóðina að taka þessa skráningu upp með öruggum og ótvíræðum hætti.
    En að lokum, virðulegi forseti, ég þakka þeim þingmönnum sem hér hafa tekið til máls og vona að þar sem þeir hv. þingmenn hér, Guðmundur H. Garðarsson og Salome Þorkelsdóttir, lögðu upp með, það mikla mál og merkilega mál sem hér er verið að flytja, ég vona það að þingheimur muni nú afgreiða þetta mál fljótt og vel svo mikið sanngirnis- og réttlætismál sem þetta er.