Þingsályktunartillaga um framkvæmdaáætlun í umferðaröryggismálum

43. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 16:49:33 (1991)


[16:49]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svörin. Eins og ég tók fram er mér það að sjálfsögðu mikið fagnaðarefni að þetta mál er komið á dagskrá ríkisstjórnarinnar með þessum hætti og þess þá heldur þegar þess er gætt og get ég vel við unað að þegar borið er saman innihald þessara tillagna og rökstuðningur fyrir þeim í greinargerð, þá er hann svo hliðstæður að manni kemur helst í hug latneska orðið copia eða copius sem þýðir mikið af einhverju og er stundum notað um það þegar efni hefur verið fjölfaldað eins og kunnugt er. Ég get að sjálfsögðu afar vel sætt mig við það að málið hafi þennan framgang og ítreka svo bara óskir mínar til hæstv. forseta að að því verði hugað í millitíðinni hvernig formlega séð sé eðlilegast að hafa meðferð þessa litla þingmáls í ljósi þess sem fram hefur komið.