Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 16:55:19 (1994)

[16:55]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Á tveimur síðustu þingum flutti ég ásamt tveimur öðrum þingmönnum Alþb. frv. til laga um sérstaka fjáröflun til varnar gegn ofanflóðum
    ( Forseti (SalÞ) : Ég bið um hljóð í salnum.)
og um breytingu á kostnaðarhlut sveitarfélaga. Í frv. var lagt til í fyrsta lagi að aukinn yrði hlutur svonefnds ofanflóðasjóðs á kostnaði við varnarvirki gegn snjóflóðum og skriðuföllum úr 80% í 90%. Í öðru lagi var opnað fyrir þann möguleika að sjóðurinn tæki þátt í kostnaði við viðhald varnarvirkja og í þriðja lagi var gerð tillaga um að styrkja fjárhagslega stöðu sjóðsins með því að leggja sjóðnum til ákveðinn tekjustofn næstu fimm árin.
    Ástæða frv. var auðvitað sú að undanfarin ár hafa staðið yfir athuganir á snjóflóðahættu og gerð hættumats þar sem við á. Þær athuganir hafa leitt í ljós að þörf er á alldýrum framkvæmdum til að verja byggð í nokkrum sveitarfélögum og allt bendir til þess að kostnaður verði meiri en núverandi tekjur sjóðsins standa undir og jafnframt að mörgum sveitarfélögum muni reynast örðugt og jafnvel ókleift að standa undir sínum hlut af kostnaði.
    Þegar félmn. Alþingis hafði frv. til meðferðar sl. vor gerðist það að mikil snjóflóð féllu á Ísafirði með hörmulegum afleiðingum. Í framhaldi af þeim atburðum ákvað félmn. að afgreiða frá sér frv. og lagði til að því yrði vísað til ríkisstjórnarinnar og að endurskoðun laganna yrði hraðað og að efni frv. yrði til athugunar við þá endurskoðun. Síðan yrði stefnt að því að frv. þar um yrði lagt fram nú þegar í haustbyrjun.
    Virðulegi forseti. Eins og ljóst má vera af þskj. er frv. þetta ekki komið fram enn og því leyfi ég mér að bera fram fsp. á þskj. 169. Hafa ber í huga að fyrirspurnin kom fram fyrir alllöngu síðan eða 1. nóvember sl. en hún er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Hvenær er þess að vænta að nefnd sú, sem ráðherra skipaði 15. júní sl. til þess að endurskoða lög um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum, nr. 28/1985, hefji störf, og hvernig hyggst ráðherra mæta samhljóða áliti félagsmálanefndar Alþingis frá því í apríl sl. þar sem áhersla var lögð á að endurskoðun laganna yrði hraðað og frumvarp þar um lagt fram nú í haust?``