Vatnsgjald

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:10:57 (2000)


[17:10]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil ítreka að hér er um verulega stórt mál að ræða, bæði efni málsins og einnig efnistök. Það er mikilvægt að ráðuneytið sinni því hlutverki sem því er ætlað samkvæmt þessum lögum. Einhver verður að vera fulltrúi og hagsmunagæsluaðili fyrir þann sem borgar gjaldið, þ.e. íbúana.
    Undanfarin ár hefur umboðsmaður Alþingis gert athugasemd við þá afstöðu félmrn. að vísa frá sér kærum eða athugasemdum frá íbúunum og neita að meðhöndla þær og gerast þannig sá aðili sem þeir geta snúið sér til ef íbúarnir eru óánægðir með sína sveitarstjórn. Það er því nauðsynlegt ef hæstv. ráðherra lítur svo á að eftirlitsskyldan sé ekki ráðuneytisins heldur verði það að koma frá íbúunum eða einstökum sveitarstjórnarmönnum að ráðuneytið skipti um afstöðu í þessu máli og gefi út yfirlýsingu um að ráðuneytið muni taka til efnislegrar meðferðar kærur eða erindi einstakra íbúa í sveitarfélögum um efni eins og þetta. Að óbreyttu mundi ráðherrann vísa því frá ef hann fylgdi fordæmi forvera sinna í starfi.
    Eins og greina mátti í fyrirspurninni er um stórar upphæðir að ræða þar sem sveitarfélögin taka miklu hærri fjárhæðir í gjaldið en kostnaðinum nemur sem gjaldinu er ætlað að standa undir. Það er óviðunandi, virðulegur forseti, að gjaldtaka sé gerð að almennum skattstofni, enda var breyting Alþingis á lögunum einmitt ætluð til að koma í veg fyrir það. Ég vil því brýna hæstv. ráðherra að líta á þetta mál og kalla eftir svörum sveitarstjórnanna við því með hvaða rökum þær innheimta meira gjald en nemur kostnaðinum sem gjaldið á að greiða.