Vatnsgjald

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:13:18 (2001)


[17:13]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Skv. 7. gr. laganna um vatnsveitur sveitarfélaga segir:
    ,,Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.
    Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. Gjalddagar vatnsgjalds skulu vera þeir sömu og sveitarstjórn ákveður fyrir fasteignaskatt og skal innheimtu vatnsgjalds hagað á sama hátt og innheimtu fasteignaskatts, sbr. 4. gr. laga nr. 90/1990.``
    Virðulegi forseti. Þetta er nokkuð skýr lagagrein en varðandi það sem gagnrýni málshefjanda og fyrirspyrjanda lýtur að þá verð ég að geta þess að ef ráðuneytið væri með frumkvæðiseftirlit á framkvæmd allra tekjustofna hjá sveitarfélögunum þá er ég hrædd um að fjölga þyrfti afskaplega mikið starfsfólki í ráðuneytinu vegna þess að um leið og komið er til frumkvæðiseftirlit á meðferð tekjustofna allra hinna, hvað eru þau, 171 sveitarfélag á landinu, þá erum við komin í allt annars konar eftirlit en það sem gerist þegar leitað er atbeina ráðuneytisins. Hvað varðar það að skoða mál þegar atbeina ráðuneytisins er leitað mun ég leitast við að taka þau mál mjög alvarlega á meðan ég er þar við verkstjórn.