Álagning vatnsgjalds og aukavatnsgjalds

44. fundur
Mánudaginn 28. nóvember 1994, kl. 17:15:25 (2002)

[17:15]
     Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Á grundvelli nýrra laga vatnsveitur sveitarfélaga frá 1991 var sett ný reglugerð um vatnsveitur sveitarfélaga og er sú reglugerð nr. 620 frá 1991. Hún er í góðu samræmi við þau drög að reglugerð sem kynnt voru í félmn. Alþingis þegar unnið var að setningu nýju laganna. Hins vegar ber svo við að 28. febr. 1992 var gerð þríþætt breyting á reglugerðinni. Í fyrsta lagi var sveitarstjórn heimilað að leggja á vatnsgjald þrátt fyrir að matsverð eignarinnar lægi ekki fyrir og þar með ekki álagningarstofn. Reglugerðarbreytingin var afturkölluð snemma á þessu ári í kjölfar athugasemda umboðsmanns Alþingis sem benti á að engin lagastoð væri fyrir umræddri heimild. Við athugun á umræddri breytingu á reglugerð hefur mjög orðið umhugsunarefni hinar tvær efnisbreytingarnar sem eftir standa. Sú fyrri er að sveitarstjórn er heimilt að ákveða hámark og lágmark vatnsgjalds miðað við rúmmál húseigna. Síðari breytingin er að í undantekningartilvikum, þegar stofnkostnaður og eða rekstrarkostnaður vatnsveitu er óvenju hár, getur ráðherra veitt sveitarstjórn heimild til að ákveða hærra aukavatnsgjald en kveðið er á um í 10. gr. reglugerðar um vatnsveitu sveitarfélaga.
    Fyrri efnisbreytingin er tvíþætt. Annars vegar er veitt heimild til að leggja á vatnsgjald miðað við rúmmál húseignar og hins vegar er sveitarstjórn heimilað að ákveða lágmark vatnsgjalds.
    Í 7. gr. laganna segir, með leyfi forseta:
    ,,Sveitarstjórn ákveður upphæð vatnsgjalds sem má nema allt að 0,3 hundraðshlutum af álagningarstofni. . . .
    Álagningarstofn vatnsgjalds skal vera afskrifað endurstofnverð húss og mannvirkis margfaldað með markaðsstuðli fasteigna í Reykjavík samkvæmt matsreglum Fasteignamats ríkisins, sbr. 3. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 90/1990. Stofn til álagningar vatnsgjalds á aðrar fasteignir skal vera fasteignamat þeirra.``
    Samkvæmt þessu viðist mér ljóst að lágmark vatnsgjalds getur ekki verið annað en núll, að öðrum kosti væru menn með tvöfalt hámark. Þá sé ég ekki heimildina í tilvitnuðum lagatexta til þess að binda vatnsgjald við rúmmál eigna.

    Því leyfi ég mér að spyrja á þskj. 202:
  ,,1. Hver er lagastoð þess ákvæðis í 9. gr. reglugerðar um vatnsveitur sveitarfélaga að sveitarstjórn sé heimilt að ákveða vatnsgjald miðað við rúmmál húseigna?``
    Ég sé, virðulegi forseti, að tími minn er á þrotum þannig að ég freista þess að bera fram fsp. í töluliðum 2 og 3 fram í síðari ræðu minni á eftir.